Stórsigrar hjá Val og FH

Valskonur fagna í gær.
Valskonur fagna í gær. Ljósmynd/Hari

Valur vann stórsigur á KR í Reykjavíkurslag í Bose-móti kvenna í fótbolta í Skessunni í gær. Valskonur voru með mikla yfirburði í fyrri hálfleik og var staðan í hálfleik 5:1. Valur bætti við einu marki í seinni hálfleik og vann að lokum 6:1-sigur. 

Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði 2 mörk fyrir Val og þær Ída Marín Hermannsdóttir, Málfríður Anna Eiríksdóttir, Arna Eiríksdóttir og Emma Steinsen Jónsdóttir skoruðu allar eitt mark hver. Hugrún Lilja Ólafsdóttir skoraði mark KR.

„Þetta var mjög góður sigur hjá okkur og við lögðum grunninn að honum með mjög góðum leik í fyrri hálfleik. Þetta jafnaðist mikið í seinni hálfleik en við getum ekki annað en verið mjög ánægðar með sigurinn. Það er gaman að taka þátt í Bose-mótinu og miklu skemmtilegra að spila undirbúningsleikina í svona alvöru móti,“ sagði Guðný Árnadóttir, leikmaður Vals, eftir leikinn

Þá vann FH 6:0-stórsigur á Keflavík. Rannveig Bjarnadóttir skoraði þrennu fyrir FH í leiknum og Valgerður Ósk Valsdóttir, Þórey Björk Eyþórsdóttir og Helena Hákonardóttir skoruðu eitt mark hver.

„Þetta var frábær sigur og gaman að byrja mótið svona vel. Ég er ánægð með spilamennskuna. Við vorum að spila mjög vel,” sagði Rannveig Bjarnadóttir, leikmaður FH, eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert