Kolbeinn skaddaði liðbönd í ökkla

Kolbeinn Sigþórsson verður frá í 4-6 vikur.
Kolbeinn Sigþórsson verður frá í 4-6 vikur. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Landsliðsframherjinn í knattspyrnu, Kolbeinn Sigþórsson, fór meiddur af velli í leik Íslands og Moldóvu á útivelli í undankeppni EM 2020 á sunnudaginn var. Um ökklameiðsli er að ræða og verður Kolbeinn frá næstu 4-6 vikurnar. 

Kolbeinn yfirgaf leikvanginn á hækjum en meiðslin eru ekki eins alvarleg og óttast var í fyrstu. Kolbeinn skaddaði liðbönd í ökkla. Hann sendi frá sér yfirlýsingu á Instagram í kvöld þar sem hann þakkar sænska félagsliði sínu, AIK, og íslenska landsliðinu. 

„Ég vil þakka AIK og íslenska landsliðinu fyrir traustið og að gefa mér tækifærið á að komast aftur á völlinn og njóta þess að spila fótbolta aftur eftir þrjú erfið ár. Þetta ferli hefur verið lærdómsríkt og jákvætt.

Ég er nú að jafna mig af ökklameiðslum og verð frá næstu 4-6 vikurnar. Ég er spenntur fyrir endurhæfingunni og að taka skref í áttina að öðru góðu ári,“ sagði Kolbeinn á Instagram.

Keppnistímabilinu í Svíþjóð er lokið og jafnframt landsleikjatímabilinu þannig að Kolbeinn fær tíma til að jafna sig í vetrarfríinu og ætti að vera kominn aftur á ferðina þegar undirbúningstímabilið fer af stað í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert