Mikið áfall fyrir Íslandsmeistarana

Emil Ásmundsson gekk til liðs við KR frá Fylki í …
Emil Ásmundsson gekk til liðs við KR frá Fylki í október á síðasta ári. Ljósmynd/@KRreykjavik

Emil Ásmundsson og Finnur Tómas Pálmason, leikmenn Íslandsmeistara KR í knattspyrnu, eru báðir meiddir þessa stundina en þetta staðfesti Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, í samtali við 433.is í dag. Emil er með slitið krossband og leikur ekkert með liðinu næsta sumar. Þá er Finnur Tómas ristarbrotinn og reiknar Rúnar með því að miðvörðurinn verði frá næstu þrjá mánuðina.

Emil sleit fremra krossband í leik KR og Fylkis í Reykjavíkurmótinu í síðustu viku en meiðslin voru staðfest í vikunni. „Hann verður frá í einhverja átta til tólf mánuði og við getum ekki reiknað með honum í sumar,“ sagði Rúnar í samtali við 433.is.

Finnur Tómas var á reynslu hjá skoska úrvalsdeildarfélaginu Rangers þegar hann brotnaði. „Finnur þarf að fara í aðgerð og eftir það má reikna með því að hann verði þrjá mánuði að jafna sig. Vonandi kemst hann í aðgerð sem allra fyrst en hann missir að öllum líkindum af byrjun tímabilsins,“ bætti Rúnar við í samtali við 433.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert