Ingvar og Atli orðnir leikmenn Víkings

Atli Barkarson og Ingvar Jónsson skrifa undir í Víkinni í …
Atli Barkarson og Ingvar Jónsson skrifa undir í Víkinni í hádeginu í dag. mbl.is/Bjarni Helgason

Knattspyrnumennirnir Ingvar Jónsson markvörður og Atli Barkarson eru gengnir til liðs við Víking í Reykjavík en þetta var staðfest á fréttamannafundi sem nú er að hefjast í Víkinni. Báðir skrifa þeir undir samning við félagið til þriggja ára.

Ingvar, sem er þrítugur að aldri, hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár og var í EM-hópi Íslands sem féll úr leik í átta liða úrslitum gegn Frökkum á Evrópumótinu í Frakklandi árið 2016. Ingvar hefur verið atvinnumaður í Noregi og Danmörku frá árinu 2015 en er nú á heimleið. Hann lék með Njarðvík og Stjörnunni, var í Íslandsmeistarliði Stjörnunnar 2014 en fór eftir það til Start í Noregi, lék síðan með Sandnes og Sandefjord þar í landi og hefur undanfarin tvö ár leikið með Viborg í Danmörku.

Atli er einungis 18 ára gamall en hann hefur leikið með unglingaliði Norwich undanfarin tvö ár og spilaði með Fredrikstad í norsku C-deildinni síðustu vikur tímabilsins 2019. Hann er uppalinn á Húsavík hjá Völsungi og þá á hann að baki 24 leiki með yngri landsliðum Íslands. Atli verður 19 ára gamall í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert