Skoraði þrennu á fimmtán mínútum

Katrín Ómarsdóttir var á skotskónum í gærkvöld.
Katrín Ómarsdóttir var á skotskónum í gærkvöld. mbl.is/Hari

Það tók Katrínu Ómarsdóttur, landsliðskonu í knattspyrnu um árabil, aðeins fimmtán mínútur að afgreiða leik KR og Fjölnis á Reykjavíkurmótinu í Egilshöllinni í gærkvöld.

Katrín skoraði öll mörk KR í 3:0 sigri og þau komu öll á fimmtán mínútna kafla um miðbik leiksins. Fyrst skoraði hún þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik og hin tvö komu á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks.

KR er þar með á toppi Reykjavíkurmótsins með níu stig eftir þrjá leiki og markatöluna 10:0. KR hefur fengið mikinn liðsauka í vetur því Lára Kristín Pedersen, Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir, Katrín Ásbjörnsdóttir, Kristín Erna Sigurlásdóttir og Ana Victoria Cate hafa allar komið til liðs við Vesturbæjarfélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert