Þjálfari AaB hrifinn af íslenska stráknum

Valgeir Valgeirsson, til hægri, í leik með HK gegn Stjörnunni.
Valgeir Valgeirsson, til hægri, í leik með HK gegn Stjörnunni. mbl.is/Árni Sæberg

Jacob Friis, þjálfari danska knattspyrnufélagsins AaB, segir að Valgeir Valgeirsson, hinn 17 ára gamli leikmaður HK sem hefur verið til reynslu hjá félaginu undanfarna daga, sé afar áhugaverður fótboltamaður.

Valgeir lék í dag sinn annan æfingaleik með aðalliði AaB þegar hann lék einn hálfleik gegn sænska liðinu Gautaborg. Í vikunni spilaði hann í jafnlangan tíma gegn danska liðinu AGF.

„Við höfðum þegar séð talsvert af myndböndum af honum, en þar sem íslenska deildin er í vetrarfríi fengum við tækifæri til að fá hann til okkar og skoða hann. Það hefur verið gríðarlega jákvætt og hann hefur staðið sig virkilega vel,“ sagði Friis við Nordjyske í dag.

„Hann er enn gjaldgengur í hálft ár með U19 ára liðinu og hann vantar enn líkamsstyrk, sem er mjög eðlilegt á hans aldri. En hann er gríðarlega duglegur og vel spilandi bakvörður svo það gæti alveg verið að við myndum vilja auka samkeppnina í þeim stöðum hjá okkur,“ sagði Friis um möguleikann á því að leikmaðurinn yrði keyptur af HK.

Valgeir sló í gegn með HK í úrvalsdeildinni síðasta sumar þegar hann lék 20 leiki með liðinu og skoraði í þeim þrjú mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert