Fjölnir í úrslit, Óskar skoraði tvö, Guðrún og Rakel á skotskónum

Valdimar Þór Ingimundarson skoraði tvö mörk fyrir Fylki.
Valdimar Þór Ingimundarson skoraði tvö mörk fyrir Fylki. mbl.is/Þórir Tryggvason

Um helgina lauk riðlakeppninni í tveimur stærstu janúarmótunum í karlaflokki í íslenska fótboltanum, Reykjavíkurmótinu og Fótbolta.net-mótinu.

Í gær varð endanlega ljóst að Fjölnir færi í undanúrslit Reykjavíkurmóts karla og myndi mæta þar Val en áður lá fyrir að KR myndi mæta Víkingi.

Fylkir átti veika von um að fara upp fyrir Fjölni á markatölu en varð til þess að vinna minnst átta marka sigur á Þrótti. Fylkir vann 3:0 og hafði náð þeirri forystu eftir 20 mínútna leik, þannig að Fjölnismenn hafa eflaust byrjað að svitna, en mörkin urðu ekki fleiri. Valdimar Þór Ingimundarson skoraði tvö fyrstu mörkin. Liðin fengu bæði sex stig en KR vann riðilinn með 12 stigum. ÍR og Þróttur fengu þrjú stig hvort.

Óskar Örn Hauksson skoraði tvö marka KR sem vann ÍR 4:0 á laugardaginn.

Skagamenn komust í úrslitaleik Fótbolta.net-mótsins á dramatískan hátt eftir að hafa verið 0:3 undir á heimavelli í Akraneshöllinni gegn Gróttu í hálfleik þar sem Óliver Dagur Thorlacius hafði skorað  tvívegis. Skagamenn náðu að jafna í 3:3 áður en yfir lauk og Eyþór Aron Wöhler gerði þriðja mark þeirra í uppbótartíma. Þar með fékk ÍA fimm stig í riðlinum, Stjarnan fjögur, Grótta fjögur og Grindavík þrjú stig en Grótta hefði farið í úrslitaleikinn með sigri.

Í hinum riðlinum vann Breiðablik sannfærandi sigur á FH í Skessunni í Hafnarfirði, 4:1, þar sem Thomas Mikkelsen skoraði tvö markanna. Breiðablik fer því í úrslitaleikinn gegn ÍA með níu stig, ÍBV fékk fjögur stig, HK þrjú og FH eitt stig. ÍBV vann HK 3:1 á Kópavogsvellinum þar sem spænski framherjinn José Sito skoraði tvö markanna en hann er kominn aftur til Vestmannaeyja eftir nokkurra ára fjarveru.

Guðrún Karítas Sigurðardóttir skoraði tvö marka Vals í 6:0-sigri á Víkingi í Reykjavíkurmóti kvenna. Fylkir og KR eru með níu stig eftir þrjár umferðir af fimm og Valur sex stig.

Rakel Hönnudóttir skoraði tvö mörk fyrir Breiðablik sem vann Keflavík 5:0 í Faxaflóamótinu í Reykjaneshöllinni.

Helstu úrslit í vetrarmótunum um helgina voru sem hér segir.

Reykjavíkurmót karla

Fylkir - Þróttur R. 3:0
Valdimar Þór Ingimundarson 6., 11., Þórður Gunnar Hafþórsson 21.

ÍR - KR 0:4
Aron Bjarki Jósepsson 28.(v), Óskar Örn Hauksson 59., 65., sjálfsmark 82.

Fótbolti.net mót karla, A-deild

FH - Breiðablik 1:4
Guðmundur Kristjánsson 62. — Thomas Mikkelsen 52.(v), 81., Benedikt V. Warén 57., Gísli Eyjólfsson 74.

ÍA - Grótta 3:3
Steinar Þorsteinsson 51.(v), Tryggvi Hrafn Haraldsson 61., Eyþór Aron Wöhler 90. — Óliver Dagur Thorlacius 7. (v), 45., Gunnar Jónas Hauksson 31.

HK - ÍBV 1:3
Alexander Freyr Sindrason 85. — José Sito 4., 31., Víðir Þorvarðarson 82.

Reykjavíkurmót kvenna

Valur - Víkingur R. 6:0
Elín Metta Jensen 34., Thelma Björk Einarsdóttir 40., Hlín Eiríksdóttir 52., Guðrún Karítas Sigurðardóttir 79., 82., Bergdís Fanney Einarsdóttir 90.

Fylkir - Þróttur R. 2:0
Stefanía Ragnarsdóttir 5., Margrét Björg Ástvaldsdóttir 39.

Faxaflóamót kvenna

Keflavík - Breiðablik 0:5
Rakel Hönnudóttir 10., 37., Þórhildur Þórhallsdóttir 18., sjálfsmark 43., Karólína Lea Vilhjálmsdóttir 63.

Norðurlandsmót karla, Kjarnafæðismótið

KA - Dalvík/Reynir 4:0
Steinþór Freyr Þorsteinsson 13., 43., Brynjar Ingi Bjarnason 27., Ottó Björn Óðinsson 56.

Leiknir F. - Magni 5:3
Marteinn Már Sverrisson 3., 85., Arkadiusz Jan Grzelak 40.(v), Kifah Moussa Mourad 4., Björgvin Stefán Pétursson 71. — Kristinn Þór Rósbergsson 13., 86. (v), Þorsteinn Ágúst Jónsson 43.

Norðurlandsmót kvenna, Kjarnafæðismótið

Tindastóll - Völsungur 0:2
Elfa Mjöll Jónsdóttir 13., Krista Eik Harðardóttir 63.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert