HK samdi við lykilmenn

Atli Arnarson í leik með HK gegn KA.
Atli Arnarson í leik með HK gegn KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnumennirnir Atli Arnarson, Bjarni Gunnarsson og Alexander Freyr Sindrason hafa skrifað undir nýja samninga við HK til næstu tveggja ára og eru allir samningsbundnir Kópavogsfélaginu til loka tímabilsins 2022.

Atli, sem er 26 ára miðumaður, kom til HK fyrir síðasta tímabil og skoraði 5 mörk í 18 leikjum í úrvalsdeildinni. Hann lék áður með ÍBV, Leikni í Reykjavík og Tindastóli og hefur samtals leikið 172 leiki í deildakeppninni og skorað í þeim 23 mörk.

Bjarni Gunnarsson í leik með HK gegn KA.
Bjarni Gunnarsson í leik með HK gegn KA. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Bjarni, sem er 26 ára kantmaður eða framherji, hefur leikið með HK undanfarin fjögur ár og alls skorað 21 mark í 71 leik fyrir félagið í efstu tveimur deildunum og þar af þrjú mörk í 17 leikjum í úrvalsdeildinni á síðasta tímabili. Hann lék áður með ÍBV og Fjölni og á alls að baki 166 deildaleiki og 31 mark.

Alexander Freyr kom til HK sem lánsmaður frá Haukum í lok ágúst en hann hafði spilað mestallan sinn feril með Hafnarfjarðarliðinu og leikið 109 leiki í deildakeppninni. Alexander er 26 ára varnarmaður og lék sex leiki með HK á lokasprettinum í úrvalsdeildinni síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert