„Sumt geta þjálfarar ekki lært í skóla“

Zeljko Óskar Sankovic.
Zeljko Óskar Sankovic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðasta sumar vakti það athygli þegar Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, veitti Herði Snævari Jónssyni viðtal í hlaðvarpsþætti og minntist sérstaklega á þátt þjálfarans Zeljko Óskars Sankovic varðandi uppgang sinn í knattspyrnunni á unglingsárum. Mánuðina áður en Kolbeinn sló í gegn með U17 ára landsliðinu var hann á séræfingum hjá Zeljko Óskari og segist eiga honum mikið að þakka.

„Hann tók mig gjörsamlega í gegn og tók þolið, sprengikraftinn, tæknina og allt sem maður þarf til að vera í toppformi og hann sá um þetta,“ sagði Kolbeinn meðal annars.

Mbl.is settist niður með Zeljko Óskari og ræddi við hann um íslenska knattspyrnumenn sem hann hefur komið nálægt í þjálfuninni. Hann er fyrst spurður um þessi ummæli Kolbeins.

„Kolbeinn var í 4. flokki þegar ég hitti hann fyrst. Ég var þá yfirþjálfari yngri flokka hjá Víkingi R. og var með séræfingar. Eftir þrjár æfingar sá ég að hann var sérstakt eintak. Ég ræddi við Andra bróður hans (fyrrverandi atvinnumann og landsliðsmann) og sagði honum að þau þyrftu að hugsa vel um þennan strák. Tveimur árum síðar var ég kominn til Grindavíkur og þjálfaði þar meistaraflokk. Ég skoðaði leikskýrslur hjá Víkingi á þeim tíma og sá ekki nafn Kolbeins. 

Andri Sigþórsson fagnar marki í sætum 3:1 sigri á Tékkum …
Andri Sigþórsson fagnar marki í sætum 3:1 sigri á Tékkum ásamt Eyjólfi Sverrissyni. Eyjólfur stýrði Kolbeini bróður Andra um áratug síðar í lokakeppni EM U21 árs landsliða í Danmörku. mbl.is/Rax

Ég hringdi í föður Kolbeins, sem sagði mér að Kolbeinn hefði tekið sér hvíld frá boltanum í einhverja mánuði og spurði hvort ég vildi ræða við strákinn. Ég renndi í bæinn og fundaði með Kolbeini á heimili fjölskyldunnar. Ég sagði Kolbeini einfaldlega að hann gæti orðið atvinnumaður í háum gæðaflokki en spurningin væri hvort hann hefði trú á því að ég vissi hvað ég væri að tala um. Honum fannst þetta langsótt og spurði hvort ég væri viss. Ég sagðist vera handviss.

Í framhaldinu hringdi Andri í mig og sagðist hafa rætt við Kolbein um þennan fund. Hann spurði hvort ég hefði verið einlægur við Kolbein eða hvort ég hefði verið að segja þetta til að lyfta honum aðeins upp. Ég útskýrði fyrir honum að mér væri alvara en þá þyrfti Kolbeinn líka að leggja á sig vinnu við æfingar,“ sagði Zeljko, en honum var sagt upp störfum á miðju sumri í Grindavík. 

 Æft fyrir allar aldir í Fífunni

Sú ákvörðun stjórnarmanna í Grindavík reyndist vatn á myllu Kolbeins. Þá var Zeljko ráðinn til HK og Kolbeinn færði sig þangað.

„Ég var bara í sex mánuði í Grindavík og þegar ég fór að vinna hjá HK tók ég Kolbein á séræfingar þegar hann og fjölskylda hans höfðu ákveðið að hann myndi skipta um félag. Ég byrjaði með morgunæfingar í akademíunni hjá HK og leikmenn gátu æft hjá mér í stað þess að taka íþróttir í MK. Kolbeinn mætti til mín á morgnana og ég reyndi að undirbúa hann nógu vel fyrir leiki U17 ára landsliðsins. 

Eitt sinn var maður staddur í Fífunni og sá að ég var að láta Kolbein hlaupa klukkan 6.30 að morgni. Hann sagði við mig: „Zeljko, þú átt eftir að ganga frá þessum dreng.“ Þetta var Heimir Hallgrímsson, sem ég hafði kynnst vel þegar ég starfaði fyrir ÍBV,“ rifjar Zeljko upp og hlær að minningunni. Um áratug síðar átti Heimir Hallgrímsson eftir að stjórna umræddum dreng í lokakeppni EM í Frakklandi.

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Zeljko Óskar tekur það fram að þjálfunin hafi snúist um svo margt annað en styrk og þol. Hann hafi farið yfir ýmislegt með Kolbeini eins og taktík bæði fyrir einstakling og lið. Andlegi þátturinn var tekinn fyrir og tæknilega hliðin. Zeljko segir skammtímamarkmiðið hafa verið að Kolbeinn kæmist í U17 ára landsliðið til að sýna sig og sanna fyrir erlendum njósnurum, en það var ekki sjálfgefið þar sem allir vissu að hann hefði hætt í nokkra mánuði.

„Lúkas Kostic var þjálfari U17 ára liðsins á þeim tíma. Hann hringdi þrisvar í mig til að spyrja hvort ég héldi að Kolbeinn yrði tilbúinn í slaginn. Ég fullvissaði hann um það og fyrir rest sagðist hann treysta mér og valdi Kolbein. 

Landsliðið komst áfram um haustið og fór til Portúgal vorið eftir og í fyrsta leik þar vann Ísland lið Rússlands sem þá var með mjög sterkt lið. Ísland vann 6:5 og Kolbeinn skoraði fjögur mörk. Eftir mótið hringdi í mig maður frá Arsenal til að spyrja um Kolbein. Arsene Wenger ætlaði þá að senda njósnara til að fylgjast með Kolbeini. 

Kolbeinn Sigþórsson skorar gegn Andorra síðasta haust. Hann er markahæsti …
Kolbeinn Sigþórsson skorar gegn Andorra síðasta haust. Hann er markahæsti leikmaður A-landsliðsins frá upphafi ásamt Eiði Smára Guðjohnsen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolbeinn hefur oft meiðst á ferli sínum en hæfileikarnir eru þess eðlis að hann hefði nánast getað spilað fyrir hvaða lið sem er. Ég get nefnt sem dæmi þegar ég fylgdist með honum í leiknum gegn Portúgal á EM 2016. Pepe var í miðri vörninni hjá Portúgal og var auðvitað leikmaður Real Madrid. Tölurnar úr leiknum sýna að Kolbeinn vann 87% af skallaboltum gegn Pepe. Góðan daginn. Þetta var ekki gegn einhverjum áhugamanni heldur einum besta miðverði í heimi.“

Frá Kýpur til Ísafjarðar

Zeljko fluttist frá gömlu Júgóslavíu eftir að stríðsátök brutust þar út á tíunda áratugnum. Hann fluttist með fjölskyldu sinni til Kýpur. Hann kom fyrst til Íslands árið 1997 og bjó þá á Ísafirði. Mágkona hans hafði þá flust til Ísafjarðar og þar voru innflytjendur frá gömlu Júgóslavíu. Þjálfaraferill Zeljko Óskars á Íslandi hófst því á Ísafirði en þaðan lá leiðin til Vestmannaeyja til að vinna hjá ÍBV áður en hann fluttist á höfuðborgarsvæðið. Þar hefur hann starfað fyrir mörg félög, Val, Víking, HK og Fram.

Zeljko tekur mörg dæmi um fleiri íslenska leikmenn sem hann kom auga á þegar þeir voru í yngri flokkum. Á Ísafirði er þekkt að Zeljko benti á 11 ára gamlan strák í 5. flokki og fullyrti að hann myndi spila A-landsleik fyrir Ísland. Það gekk eftir en þessi strákur var Matthías Vilhjálmsson, núverandi leikmaður Vålerenga í Noregi. „Ég man hvað ég gladdist þegar ég heyrði löngu seinna að Matti hefði verið valinn í A-landsliðið."

Matthías Vilhjálmsson eftir að hafa orðið efstur í M-gjöf Morgunblaðsins …
Matthías Vilhjálmsson eftir að hafa orðið efstur í M-gjöf Morgunblaðsins sumarið 2011. mbl.is/Golli

 Zeljko nefnir einnig Sölva Geir Ottesen hjá Víkingi, Gunnar Heiðar Þorvaldsson og Margréti Láru Viðarsdóttur í Eyjum, Óskar Örn Hauksson hjá Grindavík og Birki Má Sævarsson í Val varðandi knattspyrnufólk sem hann vann með og hafði strax mikla trú á. Margir urðu undrandi, segir Zeljko, þegar hann var hjá Val og nefndi Birki Má sem leikmann í 2. flokki sem gæti náð langt. Bjarni Ólafur Eiríksson var einnig mjög efnilegur og allir voru sammála um að hann gæti náð langt. Zeljko segist lítið hafa þjálfað Bjarna því hann hafi verið færður fljótt upp í meistaraflokk. Birkir var hins vegar ekki eins áberandi.

Zeljko var þjálfari 5. flokks og 2. flokks hjá Val. Hann sagðist hafa skilað af sér skýrslu þar sem hann nefndi Bjarna og Birki úr 2. flokki og Guðmund Stein Hafsteinsson úr 5. flokki sem leikmenn sem gætu gert það gott.

Í Eyjum skömmu fyrir aldamótin þjálfaði hann Atla Jóhannsson, Andra Ólafsson, Pétur Runólfsson og Olgeir Sigurgeirsson fyrir utan Gunnar og Margréti Láru. Zeljko tekur fram að Erna Þorleifsdóttir hafi unnið mikið með Margréti. Þá eru ótaldir allir leikmennirnir í HK sem hafa átt meistaraflokksferil, en við komum að þeim síðar í viðtalinu. 

Zeljko segist einfaldlega hafa einhverja hæfileika þegar kemur að því að sjá hvort ungt knattspyrnufólk hafi það sem þarf eða ekki. Hann veit ekki hvers vegna. Hann sé á hinn bóginn lélegur í ýmsu öðru sem annað fólk eigi auðvelt með.

„Sumt geta þjálfarar ekki lært í skóla. Stundum er um einhvers konar innsæi að ræða. Einhvers konar tilfinning sem maður hefur fyrir hlutunum. Rétt eins og dæmi eru um að fólk hafi getað tekið upp hljóðfæri og leikið á það án þess að hafa lært á hljóðfæri. En oft snýst þetta einfaldlega um hvernig viðhorf leikmanna er. Það gefur manni góða vísbendingu. Þannig var það til dæmis með Matthías,“ segir Zeljko en vill að það komi skýrt fram að hann hafi komið að þjálfun ýmissa leikmanna og mismikið en aðrir þjálfarar eigi sinn þátt í velgengni þeirra.

Hafnaði landsliðsþjálfarastarfi síðasta haust

Zeljko Óskar verður 66 ára gamall í september og segist vera í fínu formi. Hann sé orkumikill og hafi áhuga á að þjálfa. Hann er ekki í starfi eins og er en botnar ekki almennilega í því hvers vegna hann fái ekki starf á Íslandi um þessar mundir á sama tíma og hann fái tilboð frá útlöndum.

„Ég sótti nánast um starf úti um allt síðasta haust. Bæði í efstu deild og næstefstu deild. Ég held að ég hafi haft samband við sex eða sjö félög. En í sumum þessum félögum er ungt fólk í stjórn sem kannast ekki við mig og það er ósköp skiljanlegt þar sem ég er 65 ára gamall. En ég tel að við sem eldri erum höfum ýmislegt fram að færa og hægt sé að finna okkur stað hjá félögunum þar sem við getum hjálpað ungum og upprennandi þjálfurum. Við þjálfarar erum mismunandi og hver hefur sína nálgun.

Ég tel að það skipti máli fyrir íslenska knattspyrnu hver næstu skref verða. Ísland hefur náð að komast í lokakeppnir hjá A-landsliðum og þar voru stigin stór skref. En eins og margir vita getur verið einfaldara að komast í fremstu röð en að halda sér þar. Nú er þessi góða kynslóð sem komst á EM 2016 og HM 2018 að eldast og þá er eðlilegt að þeir fari niður á við. Spurningin er hvort okkur hafi tekist að búa til leikmenn til að taka við? Ég er ekki viss um það. En það getur verið auðvelt að vera vitur eftir á,“ segir Zelkjo. Spurður hvaða tilboðum hann hafi hafnað að utan segir hann að sér hafi boðist að þjálfa landslið.

„Ég fékk tilboð frá félagsliði í Asíu og svo bauðst mér að taka við kvennalandsliði Malasíu. Umboðsskrifstofa í London sér um þetta fyrir mig. Það hefði verið spennandi, og einnig býsna vel borgað, en mér og fjölskyldunni þótti ég þá vera kominn full langt frá Íslandi. Við eigum orðið barnabörn og líf okkar er á Íslandi. Það var ekki mikil stemning fyrir því að ég færi að þvælast til Malasíu til að vinna,“ bendir Zeljko á og glottir en hann hefur að mestu verið hérlendis í rúma tvo áratugi.

Eftir bankakreppuna fór hann þó til Serbíu og starfaði fyrir serbneska knattspyrnusambandið. Starf hans fólst í því að taka þátt í að skoða leikmenn í öðrum löndum sem ættu serbneskar rætur og gætu nýst landsliðum Serbíu. Þeir voru boðaðir til æfinga í Austurríki þar sem hægt var að leggja mat á þá og getu þeirra. Í flestum tilfellum áttu leikmennirnir foreldra frá Serbíu en höfðu alist upp hér og þar í Evrópu.

Zeljko Óskar Sankovic.
Zeljko Óskar Sankovic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á þessum tímapunti á ferli sínum sækist hann eftir meistaraflokksþjálfun. „Ég var lengi yfirþjálfari yngri flokka og það er afar krefjandi vinna. Ég er því á höttunum eftir meistaraflokksþjálfun enda fer mikil orka í að vinna með krökkunum. Fjölskyldunnar vegna væri gott ef ég myndi starfa hér á Íslandi. Ég fékk tækifæri til að þjálfa meistaraflokk í Grindavík árið 2004. Á miðju tímabili kallaði stjórnin mig á fund og menn sögðust ekki vera sáttir. Fyrirsjáanlegt væri að liðið myndi ekki komast í Evrópukeppni. Ég sagði þeim að til þess væri liðið ekki nógu sterkt. Þeir voru ósammála því en liðið náði því ekki hjá næstu þjálfururum árin á eftir og árangurinn versnaði. Mér fannst þetta ganga ágætlega en í tíu leikjum í Íslandsmótinu unnum við tvo leiki, gerðum fjögur jafntefli og töpuðum fjórum en talsverðar breytingar höfðu orðið á leikmannahópnum og slíkt getur tekið tíma eins og menn þekkja.“

Foreldrarnir hafa hlutverki að gegna

Zeljko Óskar segist hafa áhuga á að láta gott sér leiða. Eftir langan feril í íþróttinni hefur hann skiljanlega myndað sér skoðanir á því hvernig standa eigi að þjálfun og uppbyggingu leikmanna. 

„Starfsreynsla er ekki eitthvað sem maður getur sótt á námskeiði. Maður öðlast hana. Hins vegar er hægt að læra viss prinsipp og hvar hægt er að sækja sér vitneskju. Með reynslunni verða til mismunandi eiginleikar hjá okkur öllum, kostir og gallar. Ég deili glaður þeirri vitneskju sem ég bý yfir með leikmönnum, foreldrum þeirra og öðrum þjálfurum þegar tækifæri gefst. Foreldrarnir skipta nefnilega einnig máli þegar kemur að uppbyggingu leikmanna. Þau eru í raun þjálfararnir þegar kemur að því að fylgjast með svefni, mataræði og hegðun þeirra á barns- og unglingsaldri.

Mínum góðu kollegum sem þjálfa ungmenni myndi ég ráðleggja að koma sér upp skýrum hugmyndum um hvernig þeir vilja byggja upp þjálfun í mismunandi aldursflokkum, bæði hvað líkamlega þáttinn snertir og þann andlega. Á hverju ári má svo vinna með frekari útfærslu og endurskoða. Heildaráætlanir þarf að búta niður í æfingar frá degi til dags. Framsetningin þarf svo að vera með þeim hætti á æfingum að leikmenn skilji hverju þær eiga að skila. Mælingar og próf eru hluti af því að meta leikmenn en gleymum ekki leikskilningi, líkamstjáningu og viðhorfi.“ 

Tárvotur eftir leik í Noregi

Zeljko segir einstaklega gefandi þegar einstaklingar sem hann hefur þjálfað ná árangri í íþróttinni. Það gefi sér miklu meiri fyllingu heldur en einstök úrslit. Þegar menn eyði mörgum árum í þjálfun yngri flokka sé til dæmis mjög skemmtilegt að sjá fólk skila sér upp í meistaraflokk.

Hólmbert Aron Friðjónsson í Evrópuleik með Shamrock Rovers.
Hólmbert Aron Friðjónsson í Evrópuleik með Shamrock Rovers. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar ég var hjá HK held ég að hátt í tíu leikmenn úr sama flokki hafi spilað í meistaraflokki. Þetta voru Kolbeinn, Hólmar Örn Eyjólfsson, Damir Muminovic, Eiríkur frá Siglufirði sem spilaði fyrir Leikni, Leifur sem er enn fyrirliði HK, Hafsteinn Briem, Hörður Árnason sem varð meistari með Stjörnunni, Eyþór Helgi Birgisson, Hólmbert Friðjónsson og Rúnar Már Sigurjónsson var með okkur í eitt ár. Þetta er svolítið merkilegt og þeir eru allir enn að. Víðir Sigurðsson starfaði fyrir HK á þessum tíma og hann sagði mér að þetta væri hálfgert kraftaverk því það þætti gott ef tveir skiluðu sér upp í meistaraflokk,“ sagði Zeljko en tekur skýrt fram að aðrir þjálfarar hafi byggt þessa menn upp.

Zeljko segir einnig gefandi ef leikmenn komist í fremstu röð. Til dæmis hafi nokkrir leikmenn sem fóru fyrir Ísland á EM og HM verið hjá Zelkjo á einhverjum tímapunkti og Margrét Lára fór tvisvar á EM. Hann rifjar einnig upp sögu af því þegar hann heimsótti Gunnar Heiðar í atvinnumennskuna. 

Gunnar Heiðar Þorvaldsson í landsleik gegn Spáni. Í baksýn er …
Gunnar Heiðar Þorvaldsson í landsleik gegn Spáni. Í baksýn er snillingurinn Xavi. mbl.is/ÞÖK

„Þegar Gunnar Heiðar var lánaður til Fredrikstad í Noregi fór ég þangað og sá leik með honum. Systir konunnar minnar býr í Fredrikstad en sonur hennar er Zlatko Krikic sem spilaði með Haukum. Fredrikstad átti leik sem var að mig minnir í umspili um að komast í efstu deild. Gunnar lét mig fá miða í góð sæti og Gunnar skoraði þrennu í leiknum. Eftir leikinn kom Gunnar til mín og gaf mér treyjuna. Þarna fékk ég tár í augun. Þegar ég sat með treyjuna helltust yfir mig minningar frá Vestmannaeyjum þar sem ég var með Gunnar á séræfingum klukkan 6 á morgnana í Týsheimilinu, en hann var mjög metnaðarfullur.“ 

Missti af því að stýra Suker og Boban

Zelkjo segist stundum hafa lent í uppákomum varðandi fjölmiðla sem honum þykir miður. Einnig geti ýmsar sögur öðlast líf sem ekki séu endilega réttar. Hann vill gjarnan fá tækifæri til að leiðrétta þær. Ein sagan er sú að hann hafi þjálfað stórstjörnur þegar hann þjálfaði U17 og U19 ára landslið Króatíu sem ungur þjálfari.

„Í því liði hefðu Robert Jarni, Davor Suker, Zvonimir Boban og Igor Stimac getað verið. Þeir voru af þessari kynslóð. En ég stýrði þeim ekki í landsliðinu vegna þess að þeir voru kallaðir upp í U21 árs landsliðið. Það sem er rétt er að ég hefði getað verið með þá ef þeir hefðu ekki spilað upp fyrir sig. Svo fór þó ekki. En ég stýrði þeirra kynslóð í yngri landsliði,“ útskýrir Zeljko og hann nefnir annan misskilning.

Kolbeinn Sigþórsson skorar sigurmark Íslands gegn Englandi í 16-liða úrslitum …
Kolbeinn Sigþórsson skorar sigurmark Íslands gegn Englandi í 16-liða úrslitum EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

 „Mikill áhugi var á íslenska landsliðinu þegar EM í Frakklandi fór fram. Blaðamenn frá Serbíu og Króatíu tóku viðtöl við mig um Ísland en á þeim slóðum héldu margir með Íslandi í keppninni. Eftir sigurinn gegn Englandi þar sem Kolbeinn skoraði sigurmarkið náðist mynd af mér að faðma Kolbein að leiknum loknum. Blaðamaður frá Króatíu ruglaðist og skrifaði að þarna hefði verið Gylfi Þór Sigurðsson en ekki Kolbeinn. Og þar stóð jafnframt að ég hefði þjálfað Gylfa.

Eftir að þetta birtist benti ég blaðamanninum á að hann hefði farið rangt með. Honum var alveg sama og líklega fannst honum bara betra að láta þetta standa þar sem Gylfi var frægari en Kolbeinn. En þetta olli mér vandræðum því fólk hélt að ég hefði sagt við fjölmiðla ytra að ég hefði þjálfað Gylfa og hefði verið að reyna að eigna mér hlut í hans árangri. Ég hef hvorki komið að þjálfun Gylfa né haldið því fram nokkurs staðar.“

„Tilgangurinn að koma mér í ónáð hjá KSÍ“

Zeljko Óskar bætir við einni sögu þar sem hann lenti í furðulegri uppákomu fyrir löngu. „Ég má einnig til með að segja þér frá atviki sem átti sér stað þegar Ísland mætti Króatíu í undankeppni EM árið 2005. Ísland var þá á leið í útileik gegn Króatíu. Ég fékk símhringingu frá blaðamanni í Split í Króatíu og hann tjáði mér að yfirmaður knattspyrnumála hjá króatíska sambandinu, Tomislav Ivic, vildi fá upplýsingar frá mér um íslenska landsliðið. Ivic hafði þjálfað mig þegar ég var leikmaður í 2. flokki hjá Hadjuk Split og ég þekkti hann því vel. Landsliðsþjálfari Króatíu var Zlatko Kranjcar. Þessi blaðamaður spurði mig hvort ég gæti sent þeim fax þar sem ég segði þeim hvernig íslenska liðið spilaði. Skilaboðin áttu að hafa komið frá tengdasyni Ivic.

Ég var vægast sagt undrandi vegna þess að allir toppþjálfarar eru með allt á hreinu varðandi andstæðingana. Þarna var internetið komið til sögunnar og því ekkert mál að fá upplýsingar. Ég hringdi bara í Ivic og spurði hann hvað væri í gangi því ég sagðist ekkert botna í þessu. Ivic kannaðist ekkert við málið enda þurfti hann ekki á neinum upplýsingum að halda. Hann sagði mér að fara varlega. Hér væri eitthvað einkennilegt á ferðinni og líklega tilraun til að koma mér í klandur á Íslandi. Ivic var þrautreyndur í bransanum og las stöðuna rétt. Hann ráðlagði mér að senda fax með örlitlum upplýsingum um íslenska liðið sem Króatarnir vissu hvort sem var. Bara það einfaldasta. Hvaða leikkerfi Ísland spilaði og að Eiður Smári Guðjohnsen væri heilinn í sóknarleiknum. „Eftir það muntu líklega komast að því hver stendur á bak við þetta,“ sagði Ivic.

Grétar Rafn Steinsson í heimaleiknum gegn Króötum í undankeppni HM …
Grétar Rafn Steinsson í heimaleiknum gegn Króötum í undankeppni HM 2006. mbl.is/Brynjar Gauti

Ísland tapaði 4:0 fyrir Króatíu og þá fékk ég hringingu frá íslenskum fjölmiðlamanni. Hann hafði þá heyrt að ég hefði sent Króötum upplýsingar um íslenska liðið. Ég sagði honum þá hvað ég hefði raunverulega sent og nú yrði hann að útskýra hvar hann hefði heyrt þetta. Ég náði að komast að því hvaðan þetta var komið en svona getur nú knattspyrnuheimurinn verið undarlegur. Þarna virtist tilgangurinn vera að koma mér í ónáð hjá KSÍ.“

Óskarsnafnið í þremur vegabréfum

Eftir að Zelkjo varð íslenskur ríkisborgari tók hann upp nafnið Óskar. Hvers vegna varð það nafn fyrir valinu?

„Eftir sjö ár á Íslandi gátum við sótt um ríkisborgararétt og vegabréf. Við fengum því sent bréf þess efnis frá íslenska ríkinu. Á þeim tíma þurfti maður að velja íslenskt nafn og bæta því við upprunalega nafnið en þessi regla er ekki lengur í gildi. Jafnframt þurfti maður að sýna fram á að maður hafi reynt að læra íslensku á námskeiði. Það hafði ég gert á sínum tíma hjá Dóru í Menntaskólanum á Ísafirði. Ég, Elsa konan mín og Leo sonur minn sem var í menntaskólanum tókum námskeiðið. Við höfum öll einhverja hæfileika í lífinu en hæfileikar mínir til að læra tungumál eru afskaplega takmarkaðir. Mér tókst samt að öðlast vissan skilning með góðri hjálp frá Dóru og fékk skírteinið. 

Varðandi nafnið þá valdi ég Óskar vegna þess að Zeljko þýðir í raun wish á ensku eða að óska sér einhvers. Þess vegna valdi ég Óskar því það er nánast eins og Zeljko. Nú er ég með þrjú vegabréf. Það íslenska en einnig króatískt vegna þess að þar fæddist ég þótt það hafi þá heitið Júgóslavía. En ég er einnig með serbneskt vegabréf vegna þess að forfeður mínir voru þaðan. Ég læt standa Zeljko Óskar Sankovic í þeim öllum enda er þetta mitt fulla nafn,“ sagði Zeljko Óskar Sankovic í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert