Heimavöllur hamingjunnar nauðsynlegur á ferilskrána

Rut Kristjánsdóttir og John Henry Andrews, þjálfari Víkings.
Rut Kristjánsdóttir og John Henry Andrews, þjálfari Víkings. Ljósmynd/Víkingur

Knattspyrnukonan Rut Kristjánsdóttir hefur skrifað undir samning við Víkinga og mun leika með liðinu í 1. deild kvenna í sumar. Rut, sem er 26 ára gömul, er afar reynslumikil þrátt fyrir ungan aldur en hún er uppalin hjá Fylki í Árbænum og á að baki 113 leiki í efstu deild með Fylki og ÍBV þar sem hún hefur skorað níu mörk.

Hún lék sinn fyrsta leik í efstu deild árið 2008 með Fylki en hún gekk til liðs við ÍBV eftir tímabilið 2016. Hún lék með ÍBV í þrjú sumur og varð meðal annars bikarmeistari með liðinu 2017. Hún lék tvo leiki með Fylki í efstu deild kvenna síðasta sumar og fimm leiki með ÍBV en hún íhugaði að leggja skóna á hilluna eftir síðasta tímabil.

„Ég er mjög spennt fyrir sumrinu,“ sagði Rut í samtali við mbl.is en hún hefur nú þegar hafið æfingar með liðinu. „Deildin er miklu sterkari og jafnari en á árum áður. Það er fullt af  efnilegum stelpum þarna og þetta verður skemmtilegt sumar,“ sagði Rut en hún lék sex leiki með Haukum í A-riðli 1. deildar kvenna sumarið 2015.

„Víkingur er með ungt og efnilegt lið og ég vonast til þess að geta aðstoðað þessar ungu stelpur og miðlað reynslu minni enda búin að spila nokkra leiki á ferlinum. Það hentar mér vel að spila í 1. deildinni, samferða vinnunni minni, en ég kem engu að síður inn í þetta af fullum krafti. Svo fannst mér alveg nauðsynlegt að vera með heimavöll hamingjunnar á ferilskránni líka,“ bætti Rut við í samtali við mbl.is.

Rut Kristjánsdóttir á að baki 113 leiki í efstu deild.
Rut Kristjánsdóttir á að baki 113 leiki í efstu deild. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert