Skrautlegar tölur í bikarnum

Alexander Már Þorláksson skoraði tvö mörk fyrir Fram í dag.
Alexander Már Þorláksson skoraði tvö mörk fyrir Fram í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Það var líf og fjör á knattspyrnuvöllum landsins í dag er Mjólkurbikar karla í knattspyrnu hélt áfram göngu sinni. 12 leikjum er lokið í 1. umferð keppninnar í dag og nokkuð var um skrautleg úrslit.

Afturelding vann 12:0-stórsigur á 4. deildarliði Vatnalilja í Fagralundi í Kópavogi þar sem Jason Daði Svanþórsson skoraði fjögur mörk.

Fram vann 4:0 sigur á 3. deildarliði Álftaness eftir að hafa spilað manni færri frá 52. mínútu er Haraldur Einar Ásgrímsson fékk sitt síðara gula spjald. Alexander Már Þorláksson og Fred Saraiva skoruðu tvö mörk hvor í öruggum sigri Fram sem gerði öll mörkin í fyrri hálfleik.

Þá mættust vestanliðin Vestri og Hörður í fyrsta skipti í mótsleik í meira en fjóra áratugi. Vestri, sem leikur í 1. deild, hafði að vonum betur gegn nágrönnum sínum sem leika í 4. deildinni.

Þremur leikjum er ólokið í dag. Framlengt hefur verið í leik Hattar/Hugsins og Sindra, leikur KFG gegn KB hófst kl. 16 og Þróttur R. tekur á móti Álafossi kl. 18.

Úrslitin úr þeim leikjum sem búnir eru eftirfarandi og fengin frá vefsíðunni Úrslit.net:

KV - Kári 0:3
Haukar - Elliði 3:1
Vængir Júpíters - KH 3:1
Hvíti riddarinn - KFS 2:1
Vatnaliljur - Afturelding 0:12
Mídas - KM 4:1
Dalvík/Reynir - KF 1:2
Skallagrímur - Ýmir 0:2
Þróttur V. - Ægir 2:1
Kría - Hamar 2:3
Hörður Í. - Vestri 1:4
Álftanes - Fram 0:4

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert