Óvissa með sóttkví í Grafarvogi

Guðmundur Karl Guðmundsson er á meðal reynslumestu leikmanna Fjölnis.
Guðmundur Karl Guðmundsson er á meðal reynslumestu leikmanna Fjölnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnudeild Gróttu tilkynnti það í dag að Kieran McGrath, nýjasti leikmaður liðsins, myndi missa af næstu tveimur leikjum liðsins þar sem hann væri á leið í sóttkví vegna kórónuveirunnar.

McGrath er væntanlegur til landsins í dag en Grótta hefur tekið þá ákvörðun að leikmaðurinn verði ekki í kringum leikmannahópinn fyrr en það væri öruggt að hann væri ekki smitaður af veirunni.

Fjölnismenn fengu til sín tvo nýja leikmenn undir lok félagaskiptalguggans, þá Christian Sivebæk frá Viborg í Danmörku og Péter Zachán frá Paksi í Ungverjalandi, en óvíst er hvort þeir verði skikkaðir í sóttkví.

„Það hefur ekki verið tekin nein formleg ákvörðun,“ sagði Kolbeinn Kristinsson, formaður knattspyrnudeildar Fjölnis í samtali við mbl.is í dag. „Daninn kom til landsins í gær og Ungverjinn skömmu áður og voru þeir báðir prófaðir.

Bæði prófin reyndust neikvæð og Daninn Christian Sivebæk hefur verið prófaður vikulega með atvinnumannaliði sínu Viborg.  Hann hefur alltaf greinst neikvæður þannig að hann ætti að vera eins nálægt því og hægt er að vera að vera laus við kórónuveiruna.“

Fjölnismenn eru með 1 stig í næst neðsta sæti deildarinnar …
Fjölnismenn eru með 1 stig í næst neðsta sæti deildarinnar eftir fyrstu þrjár umferðirnar. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ekkert klippt og skorið í þessu

Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um það hvort leikmennirnir verði í leikmannahóp Fjölnis sem mætir Fylki á Extra-vellinum í Grafarvogi á morgun.

„Það verður þjálfarateymið sem tekur ákvörðun um það hvort þeir spili gegn Fylki. Satt best að segja veit hreinlega ekki hvort það sé okkar að ganga framar en lögin kveða á um en það er ekkert klippt og skorið í þessu og sem dæmi þá hefðu þeir að sjálfsögðu farið í sóttkví ef þeir hefðu ekki prófast neikvæðir.

Öll þessi félagaskipti hafa gerst ansi hratt og því kannski ekki gefist tími til að niðurnjörva þetta eitthvað. Ungverjinn er í sér íbúð og hefur verið í litlu samneyti við aðra. Þeir fara báðir aftur í próf á mánudaginn eftir helgi, til þess að taka af allan vafa, og það er í raun ekki mikið meira um það að segja,“ bætti Kolbeinn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert