Hlutirnir féllu með Fylki í Grafarvogi

Háloftabarátta í Grafarvoginum í dag.
Háloftabarátta í Grafarvoginum í dag. mbl.is/Sigurður

Fylkir hafði betur í nágrannaslagnum gegn Fjölni þegar liðin mættust í 4. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Extra-vellinum í Grafarvogi í dag.

Á 28. mínútu fengu Fylkismenn hornspyrnu sem Daði Ólafsson tók frá vinstri. Varnarmenn Fjölnis virtust handleika knöttinn og vítaspyrna dæmd. Valdimar Þór Ingimundarson steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Fylkismenn bættu við öðru marki snemma í síðari hálfleik þegar Arnór Gauti Jónsson átti langa sendingu fram völlinn og Arnór Gauti Ragnarsson skallaði boltann inn að vítateig. Hans Viktor Guðmundsson, varnarmaður Fjölnis, hitti ekki boltann sem dattfyrr Hákon Inga Jónsson og hann kláraði færið snyrtilega fram hjá Atla Gunnari Guðmundssyni í marki Fjölnis.

Sigurpáll Melberg Pálsson minnkaði muninn fyrir Fjölni með skalla eftir hornspyrnu á lokasekúndum leiksins og þar við sat. Lokatölur því 2:1, Fylkismönnum í vil, í Grafarvoginum.

Fylkismenn fara með sigrinum upp í fimmta sæti deildarinnar í 6 stig en Fjölnismenn eru á botninum með 1 stig.

mbl.is/Sigurður

Mikilvægastur í Árbænum

Fylkismenn voru undir á öllum sviðum leiksins, fyrstu 25. mínúturnar eða svo. Ef ekki hefði verið fyrir vítaspyrnudóminn á 28. mínútu er erfitt að sjá fyrir sér hvernig Árbæingar hefðu annars komið sér inn í leikinn. Eftir að þeir komust yfir tóku þeir öll völd á vellinum ef svo má segja.

Ólafur Ingi Skúlason var djúpur á miðju með þá Valdimar Þór Ingimundarson og Nikulás Val Gunnarsson fyrir framan sig og það er ótrúlegt að Fjölnismenn hafi ekki nýtt sér það betur því Árbæingar voru mjög slitnir á miðsvæðinu. Miðverðir Fylkis gerðu hins vegar vel í leiknum og réðu nokkuð auðveldlega við flestar fyrirgjafir Grafarvogsliðsins.

Aron Snær Friðriksson, markvörður Fylkismanna, var hins vegar besti maður Árbæinga í dag og Fylkismenn geta þakkað honum fyrir það að hafa ekki verið undir í hálfleik. Valdimar Þór Ingimundarson hefur nú skorað fjögur af fimm mörkum Fylkismanna og hefur stimplað sig inn í sumar sem lang mikilvægasti leikmaður liðsins.

mbl.is/Sigurður

Stöngin út í Grafarvogi

Fjölnismenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og létu skotin dynja á marki Árbæinga. Þeir fengu færin til þess að skora nokkur mörk á fyrstu 25. mínútum leiksins en skotin voru einfaldlega of slök og of nálægt Aroni Snæ í marki Fylkismanna sem varði oft á tíðum mjög vel.

Fjölnismenn voru að gera hlutina vel en það er eins og var talað um fyrir mót, einhver slæm ára yfir liðinu. Hlutirnir voru einfaldlega ekki að detta með þeim og það sýndi sig best þegar Fylkismenn komust yfir á 29. mínútu eftir að hafa ekki getað neitt í byrjun leiks. Þeim tókst svo að minnka muninn en það var að sjálfsögðu með lokaspyrnu leiksins.

Þá var Grafarvogsliðið að eyða óþarfa orku í að pirra sig endalaust á öllum ákvörðunum dómarans og stuðningsmenn Fjölnis voru litlu skárri í stúkunni. Heilt yfir þá voru það einstaklingsmistök sem kostuðu Fjölnismenn í dag og liðið þarf að halda fókus í 90. mínútur  og nýta færin sín betur ef það ætlar að fara safna einhverjum stigum í sumar.

Fjölnir 1:2 Fylkir opna loka
90. mín. Sigurpáll Melberg Pálsson (Fjölnir) skorar 1:2 - FJÖLNISMENN MINNKA MUNINN! Sigurpáll skallar boltann laglega upp í vinstra hornið eftir hornspyrnu frá hægri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert