Meistararnir með fleiri stig en á sama tíma í fyrra

Rúnar Kristinsson og Bjarni Guðjónsson aðstoðarþjálfari.
Rúnar Kristinsson og Bjarni Guðjónsson aðstoðarþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR, var ekki ánægður með frammistöðuna gegn Víkingi en bendir á að liðið sé þó með fleiri stig en á sama tíma í fyrra. 

KR sigraði 2:0 eftir skrautlegan leik eins og fjallað hefur verið um á mbl.is en liðið hefur unnið þrjá leiki af fyrstu fjórum og er með níu stig. Í 3. umferð fékk liðið hins vegar á kjaftinn gegn HK á heimavelli og tapaði 0:3. 

Rúnar segir mikilvægt að hafa náð í sigur í næsta leik á eftir. „Já alveg frábært að vinna næsta leik á heimavelli. Það er alltaf smá pressa að vinna hérna og við klúðruðum á móti HK. Þá áttum við ekki góðan dag og ég velti fyrir mér hvort það hafi átt þátt í slakri frammistöðu okkar í fyrri hálfleik gegn Víkingi. Hvort menn hræðist að tapa. Í stað þess að vilja vinna þá óttist menn mögulegt tap. Mér fannst það aðeins skína í gegn en nú er kominn sigur hér heima og þá líður okkur vel.

Við erum komnir á góðan stað í deildinni og erum ánægðir með uppskeruna þrátt fyrir einn tapleik. Við erum á betri stað en á sama tíma í fyrra því við erum með fleiri stig en eftir fjórar umferðir í fyrra. Við erum ánægðir með það en auðvitað eru meiðsli að herja á hópinn. Nú verður Kennie Chopart hugsanlega frá í einhvern tíma en við verðum að sjá. Hann fékk bæði högg á læri og ökkla. Hann var mjög kvalinn.“

Nikolaj Hansen og Kennie Chopart eigast við í leik KR …
Nikolaj Hansen og Kennie Chopart eigast við í leik KR og Víkings. mbl.is/Sigurður Unnar

Rúnar var hins vegar ekki ánægður með spilamennskuna gegn Víkingi þótt hann sé ánægður með að ná þremur stigum. „Ég er gríðarlega ánægður með að vinna leikinn og fá þrjú stig því við vorum ekki góðir. Fyrri hálfleikurinn var slakur að okkar hálfu. Þótt við værum manni fleiri í langan tíma í fyrri hálfleik þá gekk okkur bölvanlega að brjóta vörn þeirra á bak aftur.

Við fengum einnig á okkur fullt af sóknum þar sem þeir voru mjög ógnandi. Það var eins og jafn margir væru inn á þótt við værum manni fleiri. Það skánaði örlítið í síðari hálfleik en smátt og smátt náðum við að herja betur á þá. Við skoruðum gott mark sem gerði það að verkum að við náðum aðeins betri tökum á leiknum. Svo komu fleiri rauð spjöld og þá breyttist leikurinn.“

Varnarmaðurinn Finnur Tómas Pálmason var í stóru hlutverki í miðri vörninni í fyrra en er nú á sjúkralistanum. Rúnar segir ekki útlit fyrir að hann verði leikfær á næstunni. „Finnur prófaði að æfa síðasta miðvikudag og fékk strax verki við að hlaupa. Hann á því langt í land og sjáum ekki fyrir endann á því ennþá,“ sagði Rúnar Kristinsson við mbl.is í Frostaskjólinu í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert