ÍBV áfram með fullt hús - Afturelding skoraði sjö

Jonathan Glenn úr ÍBV eltir Mána Austmann Hilmarsson úr Leikni …
Jonathan Glenn úr ÍBV eltir Mána Austmann Hilmarsson úr Leikni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV er enn með fullt hús stiga á toppi Lengjudeildar karla í fótbolta eftir 4:2-sigur á Leikni úr Reykjavík í 4. umferð á útivelli í kvöld. Tapið var það fyrsta hjá Leikni í sumar, en Breiðhyltingar eru með sjö stig. 

Jonathan Glenn kom ÍBV yfir á 18. mínútu en níu mínútum síðar jafnaði Sólon Breki Leifsson og var staðan í hálfleik 1:1. Eyjamenn komust aftur yfir á 56. mínútu er Óskar Elías Zoega Óskarsson skoraði fallegt mark af löngu færi. 

Leiknismenn gáfust hinsvegar ekki upp og á 77. mínútu fékk Sævar Atli Magnússon vítaspyrnu sem Sólon Breki skoraði úr og jafnaði í 2:2.

Það tók ÍBV hinsvegar aðeins mínútu að komast aftur yfir og það gerði Gary Martin af stuttu færi. Átti markið ekki að standa þar sem enski framherjinn fékk boltann í höndina áður en hann lagði hann í netið.

Annað mark Martin var hinsvegar löglegt, en hann skoraði fjórða mark ÍBV í uppbótartíma og gulltryggði sigur Eyjamanna. Er enski framherjinn búinn að skora fimm mörk í deildinni í sumar. 

Fyrsti sigur Aftureldingar var risastór

Afturelding og Magni voru bæði án stiga þegar þau mættust í Mosfellsbæ, en þar náðu heimamenn í fyrstu stig sumarsins með öruggum 7:0-sigri. 

Jason Daði Svanþórsson kom Aftureldingu yfir á 29. mínútu og Andri Freyr Jónasson bætti við marki á lokamínútu fyrri hálfleiks.

Andri var aftur á ferðinni á 69. mínútu og í þriðja skiptið á 77. mínútu er hann fullkomnaði þrennuna. Andri var ekki hættur því hann skoraði fjórða markið sitt og fimmta mark Aftureldingar á 85. mínútu.

Mosfellingar voru hvergi nærri hættir því Eyþór Aron Wöhler skoraði sjötta markið á 88. mínútu og Ragnar Már Lárusson bætti við sjöunda markinu í uppbótartíma og þar við sat. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert