Toppliðin töpuðu fyrstu stigunum

Haukar töpuðu sínum fyrstu stigum í sumar.
Haukar töpuðu sínum fyrstu stigum í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Kórdrengir töpuðu sínum fyrstu stigum í 2. deild karla í fótbolta í kvöld er liðið heimsótti Akranes og gerði þar markalaust jafntefli við Kára í Akraneshöllinni. Höfðu Kórdrengir unnið alla leiki sína í deildinni til þessa 3:0. Kári er með tvö stig eftir leikinn, en liðið er án sigurs. 

Haukar töpuðu sömuleiðis sínum fyrstu stigum í sumar er Selfoss mætti í Hafnarfjörðinn og vann 2:1-sigur. Selfyssingurinn Guðmundur Tyrfingsson fékk rautt spjald á 29. mínútu hjá Selfossi og Tómas Leó Ásgeirsson kom Haukum yfir á 49. mínútu. 

Þrátt fyrir það skoruðu Ingvi Rafn Óskarsson og Hrovje Tokic fyrir Selfoss á 53. og 73. mínútu og tryggðu sætan sigur. Eru liðin bæði með níu stig, einu stigi á eftir Kórdrengjum. 

Þróttur úr Vogum náði í sinn fyrsta sigur með því að leggja Njarðvík að velli í grannaslag á útivelli, 1:0. Viktor Smári Segatta skoraði sigurmarkið á 45. mínútu. 

Þá unnu KF og ÍR sína aðra sigra í sumar. ÍR vann 3:0-útisigur á Víði. Fyrsta mark ÍR í Garðinum var sjálfsmark og þeir Viktor Örn Guðmundsson og Andri Már Ágústsson gulltryggðu öruggan sigur Breiðhyltinga. 

Borja López skoraði tvö mörk fyrir Dalvík/Reyni á heimavelli í grannaslag við Eyjafjörðinn gegn KF, en þau dugðu skammt þar sem Theodore Wilson gerði tvö mörk fyrir KF og þeir Hrannar Snær Magnússon og Oumar Diouck skoruðu einnig. 

Þá skildu Völsungur og Fjarðabyggð jöfn, 2:2, á Húsavík. Stígur Annel Ólafsson og Ásgeir Kristjánsson komu Völsungi í 2:0 en Vice Kendes og Guðjón Máni Magnússon svöruðu fyrir Fjarðabyggð og þar við sat. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert