Öll áhersla á sóknarleikinn í Kópavogi

Þórir Jóhann Helgason og Brynjólfur Willumsson eigast við í leik …
Þórir Jóhann Helgason og Brynjólfur Willumsson eigast við í leik Breiðabliks og FH í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Sex mörk litu dagsins ljós þegar Breiðablik og FH mættust í 5. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildarinnar, á Kópavogsvöll í kvöld en leiknum lauk með 3:3-jafntefli.

Hjörtur Logi Valgarðsson kom FH yfir á 22. mínútu eftir laglegan undirbúning Þóris Jóhanns Helgasonar sem galopnaði vörn Blika með fallegri stungusendingu og Hjörtur gerði engin mistök og kláraði vel fram hjá Antoni Ara Einarssyni sem var þó í boltanum.

Blikar voru ekki lengi að jafna og á 28. mínútu vann Oliver Sigurjónsson boltann djúpt á vallarhelmingi FH. Hann sendi boltann fyrir markið á Thomas Mikkelsen sem missti af boltanum. Kristinn Steindórsson var hins vegar mættur á fjærstöngina og kláraði í tómt markið gegn sínum gömlu félögum.

Mikkelsen kom Breiðabliki svo yfir með stórkostlegu marki, fimm mínútum síðar. Davóð Ingvarsson átti þá frábæra sendingu frá vinstri á Mikkelsen sem tók hann viðstöðulaust með vinstri fæti úr miðjum teignum. Boltinn söng í samskeytunum, óverjandi fyrir Gunnar Nielsen í marki FH, og Breiðablik leiddi því 2:1 í hálfleik.

Það tók FH-inga tvær mínútur að jafna metin í síðari hálfleik en þar var á ferðinni Atli Guðnason sem stýrði boltanum í netið úr teignum af stuttu færi eftir laglegan undirbúning Jónatans Inga Jónssonar.

Á 58. mínútu bætti Mikkelsen við sínu öðru marki í leiknum en hann fylgdi þá eftir skoti Brynjólfs Andersen Willumsonar sem hafði sloppið einn í gegn eftir frábæra stungusendingu Elfars Freys Helgasonar.

FH-ingar neituðu að gefast upp og níu mínútum síðar var Steven Lennon búinn að jafna fyrir Hafnfirðinga með marki úr vítaspyrnu eftir að Damir Muminovic hafði tekið Þóri Jóhann niður í vítateig Blika. Ekki voru fleiri mörk skoruð í leiknum og loktaölur því 3:3 í hörkuleik.

Breiðablik er áfram í efsta sæti deildarinnar með 11 stig og hefur tveggja stiga forskot á Valsmenn. FH er hins vegar í fimmta sæti deildarinnar með 7 stig eftir sjö leiki.

Mark í heimsklassa

Blikar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu sanngjarnt í hálfleik. Liðið mætti hins vegar ekki nægilega einbeitt til leiks í síðari hálfleik og þeir byrjuðu á því að fá á sig mark eftir barnarleg varnarmistök strax á upphafsmínútunum og hleyptu þannig Hafnfirðingum inn í leikinn.

Thomas Mikkelsen var besti leikmaður Breiðabliks í dag og fyrsta mark hans og annað mark Blika var í algjörum heimsklassa. Brynólfur Andersen Willumsson og Mikkelsen smella mjög vel saman í fremstu víglínu Blika en Brynjólfur verðu að fara skora fyrir Blika því hann er svo sannarlega að fá færin til þess.

Breiðablik hefur fengið 2 stig úr síðustu tveimur leikjum sínum. Liðið var búið að leggja Gróttu, Fylki og FJölni að velli sem er öllum spáð í neðri hluta deildarinnar í sumar. Ef Blikar ætla sér að verða Íslandsmeistarar verða þeir að vinna leikina heimaleiki sína gegn stærri liðum deildarinnar, svo einfalt er það.

Skref fram á við

Ef þessi leikur hefði verið spilaður á síðustu leiktíð hefði FH líklegast tapað honum. Hafnfirðingar lenti nokkrum sinnum undir á síðustu leiktíð og áttu erfitt með að halda haus eftir það en í dag var allt annað upp á teningnum og þeim tókst að jafna metin í tvígang eftir að hafa lent undir.

Uppspil FH-liðsins var ekki gott í fyrri hálfleik og Hafnfirðingar komu sér í vandræði trekk í trekk eftir vandræðagang í öftustu víglínu. Það var hins vegar allt annað upp á teningnum í síðari hálfleik og ákvarðanatakan var mun betri í öftustu víglínu sem varð til þess að liðið fékk mun færri áhlaup á sig frá sprækum sóknarmönnum Blika.

Þórir Jóhann Helgason, leikmaður FH, átti mjög góðan leik og lagði upp mark ásamt því að fiska vítaspyrnuna sem Steven Lennon skoraði þriðja mark liðsins út. Það er betra jafnvægi í FH-liðinu núna en í fyrra og stig gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli er betri árangur en á síðustu leiktíð þegar Hafnfirðingar töpuðu báðum viðureignum sínum gegn Blikum.

Breiðablik 3:3 FH opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert