Þrjú mörk og fyrstu þrjú stig Gróttu í efstu deild

Grótta náði sér í sín fyrstu þrjú stig í efstu …
Grótta náði sér í sín fyrstu þrjú stig í efstu deild í Grafarvoginum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var fyrst og fremst frábær sigur hjá okkur, að halda hreinu og skora þrjú mörk. Við fórum auðvitað með þessum tilgangi í leikinn og náðum að stimpla okkur vel inn,“ segir Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Gróttu, eftir 3:0 sigur á Fjölni í Pepsi Max-deild karla í Grafarvoginum í kvöld, og jafnframt fyrsta sigur Gróttu í efstu deild.

Fyrri hálfleikur byrjaði rólega og hvorugt lið náði að skapa sér færi af viti en líf færðist í leikana í þeim seinni þegar þeir Karl Friðleifur Gunn­ars­son, Hall­dór Kristján Bald­urs­son og Pét­ur Theó­dór Árna­son­ skoraði hver sitt markið á um 20 mínútna kafla.

„Það er alveg rétt að þetta var mjög rólegt til að byrja með, svolítið taktískt fram og til baka, lítið af færum og engin sérstök spilamennska í hvorugu liði. Við náðum að loka vel á Fjölnisliðið sem reyndi að koma ofarlega á okkur, en mér fannst við klára þetta vel í fyrri hálfleik,“ segir Ágúst.

Allt í rétta átt

„Seinni hálfleikur byrjaði ekkert sérstaklega, ég hafði vonda tilfinningu um að þeir kæmust eitthvað inn í leikinn, en svo skorum við markið og klárum þetta vel með því að halda hreinu og skora þrjú mörk og fá þrjú stig, fyrstu þrjú stig Gróttu sem við erum gríðarlega sáttir með.“

Ágúst segir Gróttu hafa farið í leikinn ti að vinna en að hann hafi ekki endilega átt von á svo stórum sigri. „Auðvitað eru þetta lið sem eru á svipuðum stað í deildinni og það hefði gefið hvorugu liðinu að gera jafntefli, það hefði ekki skilað neinu. VIð tókum bara af skarið og náðum að klára þetta vel með frábærum stuðningi frá okkar stuðningsmönnum. Þetta er allt í rétta átt.“

Allir í liðinu geti skorað

Liðsmenn Gróttu skiptu mörkunum bróðurlega á milli sín. „Við getum alveg skorað mörk í öllum regnbogans litum, hvort sem það er úr föstum leikatriðum, föstu spili eða öðru. Við getum skorað hvernig sem er og allir í liðinu geta skorað, við dreifum þessu vel.“

„Það sem við gerðum eftir HK-leikinn, við tókum nokkra punkta með okkur sem við ætluðum að gera í þessum leik og menn gerðu þá frábærlega vel. Nú bætum við við þessa punkta það sem við gerðum vel í dag líka og ætlum að taka þá með á móti Skaganum á heimavelli á sunnudaginn,“ segir Ágúst að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert