Værukærir Skagamenn náðu aldrei sömu hæðum

ÍA og HK eigast við í dag.
ÍA og HK eigast við í dag. Ljósmynd/Sigurður Elvar

ÍA og HK skildu jöfn, 2:2, í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í skemmtilegum leik á Norðurálsvellinum á Akranesi í kvöld. Skagamenn komust tvisvar yfir, en HK-ingar neituðu að gefast upp og jöfnuðu í tvígang. 

Skagamenn voru sterkari framan af í fyrri hálfleik og mun líklegri til að skora fyrsta markið. Það tókst loksins á 32. mínútu. Stefán Teitur Þórðarson tók aukaspyrnu á vinstri kantinum og setti boltann beint á kollinn á Óttari Bjarna Guðmundssyni sem skoraði af stuttu færi.

HK-inar vöknuðu til lífsins eftir markið og eftir nokkra pressu kom jöfnunarmarkið á 43. mínútu. Atli Arnarson skoraði þá af stuttu færi eftir fallegan undirbúning Valgeirs Valgeirssonar og var staðan í leikhléi 1:1.

Lítið var um færi framan af í seinni hálfleik og þegar hálftími var eftir var staðan enn 1:1. Sú staða breyttist í 2:1, ÍA í vil, á 66. mínútu. Stefán Teitur Þórðarson átti þá sendingu inn í teiginn og Óttar Bjarni Guðmundsson skallaði áfram á Tryggva Hrafn Haraldsson sem skoraði auðveldlega af stuttu færi. 

Gísli Laxdal Unnarsson fékk dauðafæri á 75. mínútu þegar hann slapp einn í gegn en Sigurður Hrannar Björnsson í marki HK lokaði á hann og varði vel. Aðeins örfáum sekúndum síðar fékk HK víti þar sem Óttar Bjarni fékk boltann í höndina innan teigs. Atli Arnarson fór á punktinn og skoraði með skoti í bláhornið niðri. 

Fleiri urðu mörkin ekki og skiptu liðin því stigunum sín á milli. 

Valgeir og Leifur mikilvægir

HK-liðið er mun betra þegar Valgeir Valgeirsson og Leifur Andri Leifsson eru með. Valgeir er einn sprækasti sóknarmaður deildarinnar og Leifur Andri límir vörn HK-inga saman. Skagamenn komust tvisvar yfir og eru sennilega hundfúlir með að sigla ekki sigri í hús eftir frammistöðuna glæsilegu gegn Val. ÍA náði aldrei sömu hæðum og á Hlíðarenda.

Bæði mörk ÍA komu eftir föst leikatriði og það var ekki sama yfirferð á liðinu og gegn Val. Leikmenn virkuðu kærulausir og eins og þeir væru ekki nægilega gíraðir í leikinn því þeir væru „bara“ að mæta HK. Það gerist hinsvegar ekki neitt að sjálfu sér og HK-ingar gerðu vel að lokum að ná í stig. 

Annan leikinn í röð ná þeir í stig eftir að lenda undir og það er ljóst að hausinn á mönnum í Kópavogi er á réttum stað og þeir gefast aldrei upp. Þessi lið ættu að vera í fínum málum í sumar og eru of góð til að falla. Hvort þau geti barist í efri hlutanum á eftir að koma í ljós, en ólíklegt er það. 

ÍA 2:2 HK opna loka
90. mín. Bjarni Gunnarsson (HK) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert