Ég hamraði bara á markið

Daði Ólafsson kom Fylki í 2:1 í kvöld.
Daði Ólafsson kom Fylki í 2:1 í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daði Ólafsson vinstri bakvörður Fylkis kom sínum mönnum á sigurbrautina gegn KA í kvöld þegar hann kom þeim yfir, 2:1, á 73. mínútu leiksins. Eftir það litu Árbæingar ekki til baka og lögðu Akureyrarliðið 4:1 þegar upp var staðið og eru komnir í þriðja sæti í Pepsi Max-deild karla í fótbolta.

„Það opnaðist allt í einu allt fyrir mér og Valdimar gaf stutta sendingu á mig, við náðum augnsambandi og það var enginn í mér, þannig að ég hamraði bara á markið. Það var mikið flökt á boltanum, ég sá á eftir honum í netið en held að hann hafi ekki farið í neinn. Ég hitti hann vel. Þetta var hálfgert úrslitamark því þarna tókum við yfirhöndina," sagði Daði þegar mbl.is spurði hann út í markið mikilvæga, hans fyrsta mark á tímabilinu.

Daði hefur verið þekktari fyrir að leggja upp mörk en skora en hann var sá leikmaður sem átti flestar stoðsendingar í deildinni á árinu 2019.

„Við vorum meira með boltann í seinni hálfleiknum og stjórnuðum leiknum meira. Svo fengum við þetta klaufalega jöfnunarmark á okkur en við það  fannst mér við eflast. Í kjölfarið komu þessi þrjú mörk og við afgreiddum leikinn," sagði Daði.

Fram að marki hans var leikurinn í járnum og virtist geta  farið hvernig sem var. „Já, algjörlega. Þeir fengu sín færi eins og við en mér fannst við samt vera búnir að vera þéttir í vörninni frá byrjun tímabilsins, höfum verið að vinna í því, og það er að skila sér. Vonandi höldum við því áfram."

Fylkir er kominn með níu stig úr síðustu þremur leikjunum. „Það er geðveikt. Ég veit ekki hvað er eiginlega langt síðan við höfum unnið þrjá leiki í röð, eiginlega fjóra ef við tökum bikarinn með. Við höfum fengið á okkur tvö mörk í þessum fjórum leikjum. Eini gallinn var að við skyldum fá á okkur mark í dag, ég hefði viljað sleppa því, en maður tekur því alla daga að skora  fjögur mörk í staðinn."

Fylkismenn eru komnir í þriðja sætið með þessum úrslitum og Daði kvaðst vissulega vera sáttur við það og liðið stefndi að sjálfsögðu eins langt og kostur væri.

„Já, auðvitað. En markmiðið í ár var að taka einn leik fyrir í einu og við höfum gert það. Þetta hefur gengið ágætlega eftir erfiða tvo fyrstu leiki," sagði Daði Ólafsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert