Gæti verið á Íslandi til æviloka

Fred Saraiva í leik Fram og Aftureldingar fyrr á leiktíðinni.
Fred Saraiva í leik Fram og Aftureldingar fyrr á leiktíðinni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Brasilíumaðurinn Frederico Bello Saraiva er á sínu þriðja tímabili á Íslandi en framherjinn hefur leikið listir sínar með fyrstudeildarliði Fram í Safamýrinni frá 2018. Saraiva, eða Fred eins og hann er gjarnan kallaður, er upprunalega frá Suður-Brasilíu þar sem knattspyrnuferilinn hófst í akademíu stórliðsins Gremio.

Akademían hjá Gremio hefur alið af sér knattspyrnuséní á borð við Ronaldinho og Emerson, sem báðir gerðu garðinn frægan í Evrópu, spiluðu helst með stórliðum á Spáni og Ítalíu. Þar varð líka til fyrsti Brasilíumaðurinn sem átti eftir að eiga heimkynni sín í Safamýri.

„Ég fór að heiman 14 ára til að elta drauminn um að verða atvinnumaður. Ég byrjaði í unglingaakademíu Gremio en náði aldrei að spila fyrir aðalliðið. Ég færð mig svo um set og spilaði í fjórðu deildinni í Brasilíu,“ sagði Fred í samtali við blaðamann mbl.is. „Draumurinn var alltaf að spila í Evrópu, þegar tækifærið bauðst hugsaði ég mig ekki um tvisvar, enda hafði ég aldrei farið út fyrir Brasilíu til að spila.“

Ekki kynnst öðru eins og hvassviðri í Grindavík

Jafnvel þótt Íslandsförin hafi kostað rifrildi við fjölskylduna hefur ferðin verið þess virði. „Ég þekkti landið en ekki fótboltann. Ég elska fjöllin og íslensku náttúruna, mig langaði til að koma og þurfti að rífast við föður minn til að gera það! Ég sé ekki eftir því að hafa komið, ég elska að vera hérna.

Fred kom til Íslands í mars 2018 og lagði þá af stað frá Sao Paulo í heimalandinu í 32 stiga hita og lenti í Keflavík í fjögurra gráðu frosti. Síðan þá hefur hann spilað í alls kyns veðri, nú síðast fyrir stuttu í beljandi roki í Grindavík. „Við sátum inni í búningsklefa eftir leik, horfðum hver á annan og hlógum. Það var ekki hægt að spila fótbolta,“ rifjar hann upp en heimamenn í Grindavík skoruðu markið sitt, í 1:1-jafntefli, beint úr hornspyrnu þar sem hvínandi rokið greip boltann og dró hann inn í markið.

Fred umkringdur Þórsurum í Safamýrinni.
Fred umkringdur Þórsurum í Safamýrinni. mbl.is/Íris

Ég hafði aldrei kynnst öðru eins á ævinni! En svona er þetta, það er líka oft enn snjór þegar við byrjum að æfa á vorin. Það er samt frábært að vera á Íslandi. Ég sakna fyrst og fremst fjölskyldunnar minnar í Brasilíu en veðursins svo sem aðeins líka!

Útrás í Safamýrinni

Koma Freds til Íslands var hluti af ævintýralegu útspili Framara sem vildu hrista eitthvað upp í hlutunum eftir mögur ár á fótboltavellinum. Liðið féll úr úrvalsdeild 2014 og var svo ekki nálægt því að komast aftur upp næstu ár. Snemma sumars 2017 var Ásmundi Arnarssyni sagt upp störfum sem þjálfari og við tók Portúgalinn Pedro Hipólito. Honum tókst ekki að snúa gengi liðsins sem átti enn eitt vonbrigðasumarið í fyrstu deildinni. Framarar luku keppni í 9. sæti með 27 stig.

Fyrir tímabilið 2018 átti hins vegar að blása til stórsóknar. Í Safamýrina komu tveir Brasilíumenn, Fred og Marcao, miðjumaðurinn Tiago Fernandes frá Portúgal og Mihajlo Jakimoski frá Makedóníu. Skemmst er frá því að segja að sumarið 2018 varð enn verra, Fram varð aftur í 9. sæti en nú með 24 stig og um tíma í bullandi fallbaráttu.

Pedro Hipólito, góðvinur Rui Faria.
Pedro Hipólito, góðvinur Rui Faria. mbl.is/Valgarður Gíslason

Fred, sem er eini erlendi leikmaðurinn sem eftir er í Fram, ber Hipólito þó söguna vel. „Hann er frábær þjálfari, elskar fótbolta, vildi alltaf meira og öskraði endalaust á okkur á æfingum.“ Arftaki Portúgalans var gömul Fram-kempa, Jón Þórir Sveinsson, einn leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins, varð Íslandsmeistari þrisvar með Fram og bikarmeistari þrívegis einnig á gullaldarárunum 1985 til 1990.

Þeir eru ólíkir, viðurkennir Fred. „Þeir eru ólíkir en báðir góðir þjálfarar. Nonni er yfirleitt rólegur og alltaf fyndinn, þótt hann geti alveg æst sig líka!“

Gengi liðsins er ólíkt líka. Það ríkir óvenjumikil bjartsýni í Fram nú til dags og mikil stemning hefur myndast í kringum liðið, sem er að mikli leyti byggt upp á ungum uppöldum leikmönnum félagsins. Fred er nú eini erlendi leikmaðurinn sem eftir er og er það varla grátið af stuðningsmönnum liðsins. Undirritaður heldur að hann spili það sem Íslendingar kalla oft brasilískan bílastæðafótbolta. Ég veit reyndar ekki alveg nákvæmlega hvað það þýðir annað en að um einhvers konar afbökun af suðuramerískum leikstíl er að ræða, að íslenskum hætti. Hvað sem því líður þá er Brasilíumaðurinn Fred skemmtikraftur, flinkur með boltann og búinn að skora fimm mörk í sjö leikjum í sumar. Alls hefur hann skorað 23 mörk í 59 leikjum fyrir Fram í deild og bikar.

Get verið hér það sem eftir er ævinnar

Fred segir fótboltann á Íslandi töluvert frábrugðinn því sem hann ólst upp við. „Þetta er öðruvísi; meiri harka, meiri hraði. Í Brasilíu snýst allt um að stjórna leiknum og senda til hliðar. Ég er hrifinn af íslensku leiðinni. Hér þarftu að vera tilbúinn að berjast og hlaupa í 90 mínútur,“ sagði Fred en hann telur Framliðið núna vera það sterkasta sem hann hefur leikið með.

Fram vann 6:1-sigur á Þór í síðasta deildarleik.
Fram vann 6:1-sigur á Þór í síðasta deildarleik. mbl.is/Íris

„Þetta er okkar besta lið á þessum þremur árum sem ég hef verið hérna. Við missum nokkra leikmenn í vetur en fáum frábæra leikmenn inn, Albert, Þórir og Alexander hafa allir komið með mikil gæði inn í liðið.“

Framarar eru í 4. sæti eftir átta umferðir með 17 stig, tveimur stigum frá toppliði Leiknis frá Reykjavík. Fred vonast til að vera áfram í Safamýrinni á næstu leiktíð, en þá í úrvalsdeildinni. Fred verður væntanlega mikilvægur toppbaráttuvonum liðsins. Hann hefur misst af einum leik í sumar og var það eina tapið, 4:1 gegn Leiknismönnum. Þá var það Brasilíumaðurinn sjálfur sem hjálpaði Fram að slá út úrvalsdeildarlið Fylkis í Mjólkurbikarnum í síðustu viku, tryggði liðinu framlengingu með jöfnunarmarki sínu, 1:1, í uppbótartíma og skoraði svo úr úrslitaspyrnunni í vítaspyrnukeppni.

„Ég held að við getum spilað í úrvalsdeildinni. Við mætum þessum liðum á undirbúningstímabilinu og þetta eru erfiðir leikir, auðvitað, en við stöndum í þessum liðum. Ég vil vera áfram í Fram, mér líður vel þar og ég vil vera áfram á Íslandi. Ég gæti verið hérna það sem eftir er ævinnar,“ sagði Fred í samtali við mbl.is.

mbl.is/Íris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert