Íslensk lið að losna úr sóttkví

KR-ingar eru að losna úr sóttkví.
KR-ingar eru að losna úr sóttkví. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kvennalið KR í fótbolta mun losna úr sóttkví á morgun en aðili innan liðsins greindist með kórónuveiruna á dögunum. Er í annað skipti sem KR fer í sóttkví í sumar en KR-ingar þurftu einnig að fara í sóttkví eftir leik við Breiðablik sem smitaður leikmaður spilaði. 

KR mætir Val á heimavelli í Pepsi Max-deildinni á sunnudaginn kemur, en liðið er í níunda sæti af tíu liðum með sjö stig eftir sjö leiki. 

Þá losnar karlalið Víkings í Ólafsvík úr sóttkví á miðnætti. Leikmaður liðsins smitaðist af veirunni í síðasta mánuði. Fóru allir leikmenn liðsins í skimum í kjölfarið og komu ekki frekari smit í ljós. 

Víkingur mætir Þrótti á Ólafsvíkurvelli á laugardaginn kemur klukkan 18. Ólafsvíkingar eru í níunda sæti með níu stig eftir átta leiki en Guðjón Þórðarson tók við þjálfun liðsins á dögunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert