Íhaldssamir Blikar geta ekki unnið KR

Davíð Ingvarsson og Kennie Chopart í baráttunni á Kópavogsvelli.
Davíð Ingvarsson og Kennie Chopart í baráttunni á Kópavogsvelli. mbl.is/Arnþór Birkisson

Óskar Örn Hauksson, fyrirliði KR, lék sinn 322. leik í efstu deild og varð þar með leikjahæsti maður deildarinnar frá upphafi þegar KR vann 2:0-sigur gegn Breiðabliki í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld.

Ægir Jarl Jónason kom KR-ingum yfir strax á 10. mínútu eftir frábæran undirbúning Stefáns Árna Geirssonar sem sendi hann í gegn með frábærri stungusendingu.

Ægir Jarl vippaði boltanum snyrtilega með viðstöðulausu skoti fram hjá Antoni Ara Einarssyni í marki Breiðabliks og staðan orðin 1:0.

Viktor Örn Margeirsson varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 84. mínútu þegar Óskar Örn Hauksson slapp í gegn og þar við sat.

KR fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarnnar í 26 stig og er nú 6 stigum frá FH sem er með 32 stig en KR á leik til góða.

Breiðablik er áfram í fimmta sæti deildarinnar með 23 stig eftir fimmtán spilaða leiki og er nú 3 stigum frá Evrópusæti.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Brynólfur Andersen Willumsson takast á.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Brynólfur Andersen Willumsson takast á. mbl.is/Arnþór Birkisson

Þrír af þremur hjá KR

KR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og uppskáru frábært mark eftir einungis tíu mínútna leik. Markið kom eftir mjög snoturt spil hjá Vesturbæingum og Ægir Jarl þakkaði pent fyrir það traust sem honum hefur verið sýnt í undanförnum leikjum með sínu fyrsta deildarmarki fyrir KR síðan hann kom til félagsins frá Fjölni í október 2018.

Þetta var þriðji sigur Vesturbæinga gegn Breiðabliki í sumar og óhætt að segja að Rúnar Kristinsson og lærisveinar hans í KR séu með gott tak á Kópavogsliðinu. Ólíkt fyrri leikjum sumarsins leyfðu Vesturbæingar Blikum að vera með boltann á eigin vallarhelmingi í fyrri hálfleik og pressuðu þá svo stíft þegar þeir komu inn á vallarhelming KR-inga.

Það blés hressilega í Kópavogi í kvöld og átti vindurinn eflaust sinn þátt í pressuleik KR-inga en þrátt fyrir það voru Vesturbæingar þéttir varnarlega og gáfu lítil sem engin færi á sér. KR-ingar unnu nokkra 1:0-sigra á síðustu leiktíð þegar þeir urðu Íslandsmeistarar og sigurinn í kvöld minnti svo sannarlega á marga leiki liðsins frá því á síðustu leiktíð.

Einstaklingsmistök og mark

Blikar voru ekki alveg jafn íhaldssamir í uppspili sínu og venjulega en það kom ekki að sök. Markið sem þeir fengu á sig snemma leiks en varnarmenn liðsins settu litla sem enga pressu á boltamann KR-inga sem fékk allan tímann í heiminum til þess að þræða boltann í gegnum vörn Blika, sem og hann gerði.

Liðið er mikið að reyna halda bolta innan liðsins en því miður skortir einfaldlega gæði í öftustu víglínu til þess að koma boltanum út úr pressunni þegar mest á reynir. Það tókst í eitt af hverjum tíu skiptum og þá skapaðist hætta á vallarhelmingi KR-inga en Kópavogsliðið náði ekki að nýta sér það. Þá voru menn að reyna of erfiða hluti í sóknarleiknum sem gengu engan veginn upp.

Blikaliðið lítur ágætlega út á köflum en svo koma leikir þar sem leikmenn liðsins  fara inn í skelina og þora ekki að stíga upp. Það skortir allan stöðugleika í Kópavoginn og þjálfarateymið virðist líka vera fast í ákveðinni íhaldssemi sem gerir liðinu erfitt um vik gegn liðunum í efri hluta deildarinnar enda virðist það oft duga að pressa bara Blika stíft og neyða þá þannig í klaufaleg mistök, sem kosta ítrekað mörk.

Breiðablik 0:2 KR opna loka
90. mín. Leik lokið Leik lokið með 2:0-sigri KR-inga. Þriðja tap Blika gegn KR í sumar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert