Ekki hægt að bomba hausnum endalaust í steininn

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Tilfinningarnar eru allskonar, bæði svekkelsi og vonbrigði, sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 2:0-tap liðsins gegn KR í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Mér fannst við eiga fyrri hálfleikinn og ég var svekktur að við skildum ekki ná að breyta yfirburðum okkar í hálfleiknum í mörk og ná þannig frumkvæðinu í leiknum. Við byrjum svo aldrei seinni hálfleikinn og mér finnst það hafa verið aðeins viðloðandi hjá liðinu, þegar hlutirnir eru ekki að falla með okkur og það vantar aðeins upp á taktinn, þá erum við fljótir að missa agann.

Menn virðast missa trúna á skipulaginu og því sem við höfum verið að gera vel. Menn fara aðeins að vinna hver í sínu horni og mér fannst það frekar augljóst í seinni hálfleik. Þú kemst ekkert áleiðis ef þú ert einsamall í þessum bransa, þetta er liðsíþrótt, og það vantaði liðsheildina hjá okkur í seinni hálfleik, ólíkt KR-ingunum, sem eru með frábæra liðsheild og fylgja því sem lagt var upp með í 90. mínútur.“

Kennie Chopart og Davíð Ingvarsson takast á.
Kennie Chopart og Davíð Ingvarsson takast á. mbl.is/Arnþór Birkisson

Barnarleg mistök

Þetta var þriðji tapleikur Breiðabliks gegn KR í sumar en liðið tapaði 3:1-gegn KR í Vesturbæ í deildinni og 4:2 á Kópavogsvelli í bikarkeppninni á dögunum.

„Ég helda ð það hafi sýnt sig í þessum þremur leikjum liðanna í sumar að annað liðið er agaðra en hitt og það er áhyggjuefni. Við gerum barnalega mistök í seinni hálfleik og mistök sem skrifast kannski ekkert endilega á einhverja hugmyndafræði eða eitthvað annað.

Þau skrifast fyrst og fremst á það að menn missa einbeitinguna og hætta kannski að trúa á það sem við höfum verið að gera. Þeir fara kannski að gera eitthvað annað, eitthvað sem þeir þekkja, en það hefur ekki virkað fyrir okkur í sumar þegar menn fara einir í leiðangra upp á fjall.

Ég myndi segja að munurinn á KR og Breiðabliki, akkúrat í dag, er sá að KR klárar leikina sína á meðan við gerum það ekki.“

Rúnar Kristinsson og KR hafa þrívegis lagt Blika að velli …
Rúnar Kristinsson og KR hafa þrívegis lagt Blika að velli í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verðum að klára leikina 

Blikar hafa gert vel í að vinna liðin í neðri hluta deildarinnar í sumar en þegar kemur að liðunum fyrir ofan sig þá hefur stigasöfnun Kópavogsliðsins gengið afar illa.

„Menn eru betri í að refsa fyrir þau mistök sem eru gerð. Steven Lennon refsar, Atli Sigurjónsson, Óskar Örn og Ægir Jarl, refsa allir fyrir mistök. Tölfræðin sýnir að það er fullt af góðum hlutum í gangi en vesenið er bara það að þú færð ekkert fyrir það nema þú skilir úrslitum því þetta er jú úrslitabransi.

Við getum sagt að við séum á einhverjir vegferð og séum að reyna breyta ákveðnum hlutum en þegar öllu er á botninn hvolft höfum við tapað þrisvar fyrir KR í sumar. Við höfum verið meira með boltann í öllum leikjunum en það skiptir einfaldlega engu máli.

Við þurfum að vera betri í að klára leikinn í 90. mínútur á okkar hátt, án þess að missa dampinn, og það er helsti lærdómurinn sem við tökum úr þessum leikjum. Við getum verið betri, stærri hluta leiksins, en það dugir ekki gegn sterkustu liðum deildarinnar og við verðum að klára leikina okkar.

Það er okkar stærsta verkefni á næstunni og eins og ég sagði eftir FH-leikinn; úrslitin segja okkur það að við erum fyrir aftan þessi lið í dag. Við höfum tekið miklum framförum á ákveðnum sviðum en liðið hefur hafnað í öðru sæti deildarinnar undanfarin tvö ár og krafan er og verður alltaf að gera betur.

Það er hægt að velta því fyrir sér hversu mikil innistæða var fyrir þeim árangri en svona er heimurinn sem við lifum í. Við erum á ákveðinni vegferð en eins og þetta kemur mér fyrir sjónir tekur þetta of langan tíma og við þurfum að reyna hraða þessu ferli.

Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Brynjólfur Andersen Willumsson.
Arnór Sveinn Aðalsteinsson og Brynjólfur Andersen Willumsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ein leið af fjögur hundruð

Óskar Hrafn var fenginn í Kópavoginn til þess að berjast um Íslandsmeistaratitilinn en liðið er 14 stigum frá toppliði Vals.

„Það er alltaf pressa, pressan kemur bæði frá manni sjálfum og frá félaginu líka. Það er mikilvægt að vera í toppbaráttunni og ná Evrópusæti. Fjárhagur félaganna er að einhverju leyti samofinn því að ná Evrópusæti þannig að pressan er svo sannarlega til staðar.

Svo verður bara að koma í ljós hvort að þessi leið sem við viljum fara, sem er ein leið af fjögur hundruð til þess að spila fótbolta, muni skila nægilegum góðum árangri, nægilega hratt.

Hún er hvorki verri né betri en allar hinar gerðirnar af fótbolta sem eru spilaðar í þessari deild en maður þarf svo sjálfur að passa sig á því að þó manni þyki vænt um það sem við erum að gera þá verðum maður líka að bera virðingu fyrir því sem aðrir eru að gera.

KR þarf ekki að vera með boltann meira en andstæðingurinn til þess að vinna sína leiki og í bikarleiknum gegn okkur voru þeir með 155 heppnaðar sendingar en samt vinna þeir 4:2. Það segir okkur það að þeir eru mjög effectívir og það er virkilega virðingavert.

Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta einfaldlega um það hvort menn hafi tíma til þess að bíða eftir því að þetta skili sér í spilamennsku þar sem þú nærð að stýra og stjórna leikjum í 90. mínútur sem er það sem við stefnum að.

Þetta er spurning fyrir bæði félagið, leikmennina og jafnvel þjálfarana hvort að fólk geti beðið ef þetta tekur of langan tíma enda er ekki hægt að bomba hausnum í steininn endalaust þegar hlutirnir eru einfaldlega ekki að ganga,“ bætti Óskar Hrafn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert