Fyrirliði Svía lofar Glódísi í hástert

Caroline Seger í Laugardalnum í dag.
Caroline Seger í Laugardalnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Caroline Seger fyrirliði sænska landsliðsins í fótbolta sat fyrir svörum blaðamanna á fundi í Laugardalnum í dag. Ísland og Svíþjóð mætast í undankeppni EM á morgun og mun Seger mæta fyrrverandi samherja sínum í Söru Björk Gunnarsdóttur og núverandi samherja sínum Glódísi Perlu Viggósdóttur en þær leika með Rosengård í Svíþjóð. 

„Ég spilaði aðeins með Söru í Svíþjóð og ég hef fylgst vel með henni. Það er gaman að sjá að hún er komin til Lyon og að gera góða hluti, bæði með Wolfsburg og svo núna Lyon. Ég þekki svo Glódísi, hún er ung en hugarfarið hjá henni er eins og hjá reynslubolta. Hún er mikill karakter, frábær manneskja og hún á framtíðina fyrir sér,“ sagði Seger um Glódísi og Söru. 

Hún á von á því að íslenska liðið taki vel á því sænska á Laugardalsvelli á morgun. „Ég veit íslenska liðið mun spila mjög fast og hlaupa mikið. Ísland mun ekki bera of mikla virðingu fyrir okkur. Það er sama á móti hverjum liðið er að spila, þær spila alltaf fast og munu eflaust láta okkur finna fyrir því. Við verðum að vera klárar í allt og vera skipulagðar og spila boltanum hratt á milli okkar til að skapa pláss.“

Eru bæði lið með fullt hús stiga eftir fjóra leiki og er toppsætið því undir. „Þetta eru efstu tvö liðin og við verðum að ná í góð úrslit. Takmarkið okkar er að yfirgefa Ísland með stigin þrjú,“ sagði Caroline Seger. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert