Keflvíkingar á toppinn - Ástralinn með 20 mörk - jafnt í Eyjum

Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Eysteinn Húni Hauksson eru með Keflavík …
Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Eysteinn Húni Hauksson eru með Keflavík á toppnum. Ljósmynd/Þórir

Keflvíkingar eru efstir í 1. deild karla í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á nýjan leik eftir öruggan sigur á Þrótti úr Reykjavík, 4:2, á Nettóvellinum í Keflavík í dag.

Ástralski framherjinn Josep Gibbs skoraði tvö markanna og hefur nú gert 20 mörk fyrir Keflavíkurliðið í deidlinni í ár. Adam Árni Róbertsson og Nacho Heras skoruðu einnig en staðan var 4:0 eftir klukkutíma leik. Sölvi Björnsson kom Þrótti á blað með marki seint í leiknum og Esaú Rojo lagaði stöðuna í 4:2 úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Í Vestmannaeyjum gerði ÍBV enn eitt jafnteflið þegar Þór kom í heimsókn en lokatölur á Hásteinsvelli urðu 2:2.

Þórsarar gerðu sjálfsmark á 6. mínútu en Fannar Daði Malmquist Gíslason jafnaði fyrir þá á 14. mínútu. José Sito kom ÍBV yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks, 2:1, en Álvaro Montejo jafnaði úr vítaspyrnu á 61. mínútu, 2:2.

Halldór Páll Geirsson markvörður ÍBV fékk rauða spjaldið á 84. mínútu leiksins.

Keflvíkingar eru þá komnir með 34 stig, Leiknir R. er með 33 stig, Fram 33, ÍBV 27 og Þór 27 stig. Leikur Fram og Grindavíkur hefst klukkan 19.15 og þar geta Framarar því komist í efsta sætið. 

Þróttarar eru áfram jafnir  Leikni frá Fáskrúðsfirði í 10. til 11. sæti deildarinnar með 12 stig en Magni er með 9 stig á botninum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert