„Sara ein sú besta í heimi“

Peter Gerhardsson ræðir við fjölmiðla í Laugardalnum í dag.
Peter Gerhardsson ræðir við fjölmiðla í Laugardalnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Peter Gerhardsson þjálfari sænska kvennalandsliðsins í fótbolta á von á erfiðum leik gegn Íslandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli á morgun. Hann á von á að íslenska liðið láti finna fyrir sér og þá segir hann sænska liðið þurfa að varast föst leikatriði. 

„Ég fylgdist vel með íslenska liðinu á EM 2017. Þær eru fastar fyrir og þetta verður erfiður leikur og væntanlega mikið barist á vellinum. Íslenska liðið er með mjög góða leikmenn. Við skoruðum átta mörk á móti Ungverjum, en við vitum að við þurfum að hafa fyrir hlutunum á móti íslenska liðinu og vera klár að verjast föstum leikatriðum.“

Gerhardsson hrósaði Glódísi Perlu Viggósdóttur og Söru Björk Gunnarsdóttur sérstaklega. Glódís er ein sú besta í Svíþjóð og Sara ein sú besta í heimi að mati hins 61 árs gamla Gerhardsson. 

„Glódís er einn besti leikmaðurinn í sænsku deildinni. Hún er virkilega góð. Íslenska liðið er svo skemmtileg blanda af ungum leikmönnum og svo eldri og reynslumeiri. Ungu leikmennirnir voru góðir á móti Lettum. Svo er Sara einn besti leikmaður heims,“ sagði Gerhardsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert