ÍA fór langt með að fella Gróttu

ÍA og Grótta mætast í dag.
ÍA og Grótta mætast í dag. mbl.is/Sigurður Unnar

ÍA vann sinn fyrsta sigur í Pepsi Max-deild karla í fótbolta síðan 15. ágúst er liðið hafði betur gegn Gróttu á heimavelli, 3:0. 

ÍA byrjaði á því að ná í tvær hornspyrnur, en ekkert kom úr þeim. Var fyrri hálfleikurinn með rólegra móti í hávaðaroki og erfiðum aðstæðum, þangað til að ÍA fékk sína fimmtu hornspyrnu á 26. mínútu. Hana tók Tryggvi Hrafn Haraldsson og gerði sér lítið fyrir og skoraði beint úr horninu. 

Gísli Laxdal Unnarsson fékk fínt færi skömmu síðar en Hákon Rafn Valdimarsson í marki Gróttu varði vel frá honum. Gróttumenn, með vindinn í andlitið, sköpuðu lítið sem ekkert í hálfleiknum og var staðan í leikhléi 1:1. 

Grótta lék ágætlega framan af í seinni hálfleik en það dugði skammt því varamaðurinn Sigurður Hrannar Þorsteinsson skoraði annað markið á 82. mínútu eftir fyrirgjöf og sprett hjá Gísla Laxdal Unnarssyni. Tryggvi Hrafn Haraldsson gulltryggði svo 3:0-sigur með marki úr víti sem hann náði í sjálfur undir lokin og þar við sat. 

Skagamenn að skilja Gróttu eftir

Eftir leikinn er nánast hægt að afskrifa Gróttu í botnbaráttunni. Er liðið sjö stigum frá öruggu sæti og þarf liðið því í það minnsta að vinna þrjá leiki af þeim sjö sem eftir eru. Grótta er með einn sigur í allt sumar og hefur liðið ekki verið nálægt því að bæta við öðrum sigri í nokkrun tíma. 

Leikmenn virðast ekki hafa mikla trú á að ná í sigra og ógnuðu Gróttumenn lítið á Akranesi í kvöld. Liðið er í mjög stuttu máli ekki nægilega gott til að spila í efstu deild, eins og reiknað var með fyrir mót. Sigur í kvöld hefði gert mikið fyrir Gróttu en liðið var aldrei líklegt til þess að ná í þrjú stig. 

Skagamenn sloppnir

Eftir fína byrjun á mótinu hefur lítið gengið hjá ÍA síðustu vikur og var sigurinn sá fyrsti í mánuð. Að skora hefur ekki verið vandamál hjá ÍA í sumar, heldur hefur liðið lekið inn mörkum. Að halda hreinu ætti að gefa mönnum byr undir báða vængi fyrir komandi verkefni. 

ÍA er með töluvert betra lið en bæði Fjölnir og Grótta og fóru Skagamenn úr tíunda sæti og upp í það sjöunda með sigrinum. Gangi allt upp það sem eftir lifir tímabils getur ÍA blandað sér í Evrópubaráttu, þótt það sé mjög langsótt. Það var jákvætt fyrir ÍA að Tryggvi Hrafn Haraldsson spilaði vel og þá eru ungir Skagamenn á borð við Gísla Laxdal Unnarsson að nýta tækifærið vel sömuleiðis. Það vantar ekki efniviðinn á Skaganum. 

ÍA 3:0 Grótta opna loka
90. mín. Leik lokið Skagamenn sterkari í dag. Gróttumenn eru í afar slæmum málum í fallbaráttunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert