Stöðva taplausir Stjörnumenn sigurgöngu Vals?

Stjarnan tekur á móti Val í kvöld.
Stjarnan tekur á móti Val í kvöld. mbl.is/Þorsteinn

Einn af lykilleikjunum í baráttunni um Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld þegar Stjarnan tekur á móti Val.

Þar mætast eina taplausa lið deildarinnar og langefsta liðið. Stjörnumenn eru enn ósigraðir eftir 12 leiki en þeir hafa unnið sex leiki og gert sex jafntefli. Þeir eru í þriðja sæti með 24 stig, tíu stigum á eftir Val, en eiga tvo leiki til góða.

Valsmenn eru með 34 stig, átta stigum á undan FH sem er í öðru sæti, og hafa unnið átta síðustu leiki sína í deildinni.

Valur og Stjarnan gerðu markalaust jafntefli í fyrri leik sínum á Hlíðarenda í sjöttu umferð deildarinnar en frá þeim tíma hefur Valur unnið alla átta leiki sína.

Vinni Stjörnumenn í dag verða þeir með 27 stig gegn 34 hjá Val, og eiga áfram tvo leiki til góða. Garðbæingar verða að knýja fram sigur, ef þeir ætla að gera sér vonir um að geta fylgt Hlíðarendaliðinu eftir í baráttunni um titilinn.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 en leikir dagsins eru annars þessir:

16.30 ÍA - Grótta
19.15 Stjarnan - Valur
19.15 Fylkir - FH
19.15 Breiðablik - KR
20.00 Víkingur R. - HK

Í 1. deild karla, Lengjudeildinni, eru jafnframt fjórir leikir. Þar freista Fram og Keflavík þess að komast aftur framúr Leiknismönnum úr Reykjavík sem náðu toppsætinu með sigri á Magna í gær. Leiknir er með 33 stig, Fram 33, Keflavík 31, ÍBV 26, Þór 26 og Vestri 26 í efstu sætum deildarinnar.

16.30 ÍBV - Þór
16.30 Keflavík - Þróttur R.
19.15 Afturelding - Víkingur Ó.
19.15 Fram - Grindavík

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert