„Verðum meistarar ef við vinnum rest“

Guðmundur Kristjánsson.
Guðmundur Kristjánsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á fimmtudaginn kemur verður afar mikilvægur leikur þegar tvö efstu liðin í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu, Valur og FH, mætast í Kaplakrika. 

Bæði lið hafa rakað inn stigunum undanfarið. Eins og deildin hefur þróast er FH í raun eina liðið sem getur orðið Íslandsmeistari fyrir utan Val sem er með átta stiga forskot. FH á leik til góða en þessi lið eiga eftir að mætast í deildinni og munu því mætast tvisvar á lokasprettinum. 

„Það góða er að takist okkur að vinna rest þá verðum við meistarar. Við eigum eftir að mæta Valsmönnum tvisvar og næsti leikur verður gott próf fyrir bæði liðin. Valsmenn eru á mjög góðri siglingu og er ég spenntur fyrir þeim leik. Það verður gott fyrir okkur að sjá hvar við stöndum gegn alvöru mótherja. Leikir þessara liða eru skemmtilegir. Valsmenn eru mjög góðir og við þurfum að sýna alvöru frammistöðu. Í kvöld gerðum við nóg en urðum kærulausir að mér fannst en leikurinn á móti Val er leikur þar sem menn þurfa að vera á tánum allan leikinn. Ég er spenntur að sjá hvernig við mætum þeim. Þetta verður toppslagur og ef við viljum stimpla okkur inn í titilbaráttu af alvöru þá verðum við bara að vinna. Ég hlakka til að gera það,“ sagði Guðmundur Kristjánsson, miðvörður FH, þegar mbl.is tók hann tali í Árbænum í kvöld þar sem FH vann Fylki 4:1. 

FH hefur unnið sex af síðustu leikjum sínum í deildinni. Hverju þakkar Guðmundur það að FH-liðið hafi náð þessum stöðugleika?

„Mér finnst við vera skipulagðari í vörninni og í sókninni höfum við einfaldað svolítið hvað við viljum gera. Allir þekkja sín hlutverk betur en áður finnst mér enda höfum við æft vel staðsetningar í vörninni og hlaupaleiðir í sókninni. Eins og sést þá virkum við betur sem lið og erum hættulegir fram á við. Meira að segja í leik eins og í kvöld þar sem Lennon nær ekki að nýta færin þá skorum við samt fjögur mörk. Það er ekki slæmt.“

Staðan var markalaus að loknum fyrri hálfleik í Árbænum í kvöld en FH-ingar skoruðu þrívegis á fyrstu sextán mínútunum í síðari hálfleik og slitu sig frá Fylki.

„Þetta var svolítill seiglusigur eins og stundum undanfarið. Mér fannst við vera töluvert betri í fyrri hálfleik og fengum þá fullt af marktækifærum en náðum ekki að nýta þau. Við náðum að skora tvö á skömmum tíma í seinni og vorum þá komnir í 3:0 forystu. Þá fórum við að reyna að sigla þessu heim. Mér fannst við fyrir vikið vera aðeins kærulausir í síðari hálfleik en við erum á góðri siglingu á heildina litið,“ sagði Guðmundur Kristjánsson ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert