Vorum skömmuð á mbl.is eftir síðasta leik

Alfreð Elías Jóhannsson þjálfari Selfyssinga.
Alfreð Elías Jóhannsson þjálfari Selfyssinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var ekki okkar besti leikur hvað spil varðar, sérstaklega framan af. Fyrstu tuttugu mínúturnar voru bara slakar en síðan tökum við leikinn yfir en erum ekki að ná að koma okkur í vænlegar stöður,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss sem vann KR 2:1 á heimavelli í Pepsi Max-deildinni í knattspyrnu í dag.

„Þegar við erum með boltann þá erum við að koma okkur í vandræði með því að koma honum ekki á rétta staði, í staðinn fyrir að koma okkur í betri stöðu og senda boltann í hlaupaleiðina á framherjunum. Við vorum að taka ágætis hlaup fram á við en sendum boltann ekki nógu vel upp völlinn,“ sagði Alfreð ennfremur og bætti við að liðið hafi staðið sig betur í seinni hálfleiknum.

„Já, og það var mjög sætt að klára þetta og flottur karakter hjá stelpunum að gera það. Þetta var erfiður leikur. Við erum að spila á móti liði sem er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og við erum að berjast fyrir 3. sætinu. Mér fannst vera getumunur á liðunum hér í dag og ég er ánægður með stelpurnar þegar upp er staðið.“

Þetta var aðeins þriðji sigur Selfoss á heimavelli í sumar en Selfossvöllur hefur hingað til þótt erfitt vígi heim að sækja.

„Við áttum bara tvo heimaleiki eftir fyrir þennan leik og við lögðum mikla áherslu á að klára þessa leiki með sigri. Við ætlum að reyna að laga árangurinn á heimavelli í sumar. Við vorum skömmuð á mbl.is eftir síðasta leik fyrir lélegan árangur á heimavelli og ég tók það til mín. Það er eitt af okkar gildum að gefa ekkert hérna á heimavellinum og vinna þessa leiki, en það hefur ekki fallið með okkur í sumar,“ sagði Alfreð að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert