Stelpurnar náðu sér ekki á strik í Gautaborg

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir með boltann í kvöld.
Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir með boltann í kvöld. Ljósmynd/Bildbyran

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tapaði sínum fyrsta leik í undankeppni EM þegar liðið heimsótti topplið Svíþjóðar á Ullevi-leikvanginn í Gautaborg í Svíþjóð í dag.

Leiknum lauk með 2:0-sigri sænska liðsins en mörkin tvö komu sitt í hvorum hálfleiknum.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og strax á 8. mínútu vildi Ísland fá víti.

Hlín Eiríksdóttir komst þá upp hægri kantinn, sendi boltann fyrir og Elín Metta Jensen féll í teignum. Sveindís Jane Jónsdóttir komst ekki í boltann á fjærstönginni og sóknin rann út í sandinn.

Íslenska liðið setti góða pressu á Svíana á fyrstu fimmtán mínútunum og tókst að vinna boltann ofarlega á vellinum trekk í trekk. Þeim tókst hins vegar ekki að nýta sér það sem skyldi og Svíar unnu sig hægt og rólega inn í leikinn.

Á 20. mínútu átti Sveindís Jane flottan skalla rétt utan teigs, inn fyrir vörn Svía, og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir komst í boltann en hún hitti hann illa og skotið fór beint á Jennifer Falk í marki Svía.

Fimm mínútum síðar átti Nathalie Björn sendingu, rétt utan teigs, inn fyrir vörn Íslands. Glódís Perla Viggósdóttir teygði sig í boltann sem breytti þannig um stefnu.

Sofia Jakobsson var fyrst að átta sig, náði til knattarins og þrumaði honum í nærhornið fram hjá Söndru sem var komin aðeins út úr markinu.

Það hægðist mikið á leiknum eftir þetta, hvorugu liðinu tókst að skapa sér afgerandi marktækifæri og Svíar leiddu því með einu marki gegn engu í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað. Á 54. mínútu datt boltinn út fyrir vítateig íslenska liðsins, beint á Karólínu Leu sem var í fínu skotfæri en hún slæsaði boltann vel fram hjá marki Svíanna.

Þremur mínútum síðar barst boltinn til Oliviu Schough, rétt við miðjubogann. Schough keyrði í átt að marki íslenska liðsins, labbaði fram hjá þremur leikmönnum Íslands og hamraði svo boltann upp í samskeytin nær og staðan orðin 2:0 Svíum í vil.

Svíar fengu mjög gott tækifæri til þess að skora þriðja mark leiksins á 65. mínútu þegar Sofia Jakobsson fór illa með varnarmenn íslenska liðsins en skot hennar með vinstri fæti fór rétt fram hjá markinu.

Sveindís Jane átti ágætis marktilraun á 71. mínútu þegar fyrirgjöf hennar frá vinstri endaði sem skot en Falk í marki Svía var vel staðsett og greip boltann örugglega.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk besta færi íslenska liðsins á 84. mínútu þegar Sveindís átti flotta sendingu frá hægri en Berglind náði ekki að stýra boltanum í átt að marki af stuttu færi í teignum.

Sveindís minnti rækilega á sig, þremur mínútum síðar, þegar hún tók boltann á lofti og þrumaði honum í átt að marki rétt utan teigs en Falk kastaði sér á boltann og varði virkilega vel.

Þetta reyndist síðasta færi leiksins og Svíar fögnuðu öruggum og sanngjörnum sigri í leikslok.

Íslenska liðið er áfram í öðru sæti riðilsins með 13 stig, 6 stigum minna en Svíar, en íslenska liðið á leik til góða á það sænska.

Sænska liðið er svo gott sem öruggt með sæti sitt á EM en liðið þarf aðeins eitt stig úr síðasta leik sínum í riðlinum til þess að gulltryggja EM-sætið.

Svíþjóð 2:0 Ísland opna loka
90. mín. +3 mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert