Ætlum okkur til Englands

Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, á hliðarlínunni í Gautaborg …
Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, á hliðarlínunni í Gautaborg í leik Svíþjóðar og Íslands í undankeppni EM 27. október. Ljósmynd/Bildbyrån

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir því slóvakíska í undankeppni Evrópumótsins í dag klukkan 17:00 í Slóvakíu. Ísland vann fyrri leikinn 1:0 á síðasta ári.

Íslenska liðið er sem stendur í 2. sæti með 13 stig eftir sex leiki í F-riðli. Náist sigrar í leikjunum tveimur sem liðið á eftir getur liðið orðið eitt af þeim þremur sem eru með bestan árangur í 2. sæti riðla undankeppninnar og farið þannig beint á EM. Hin sex liðin í 2. sæti fara í umspil og keppa um síðustu þrjú lausu sætin.

Slóvakía er í 3. sæti F-riðilsins með 10 stig eftir sex leiki og getur því jafnað Ísland að stigum með sigri í leiknum. Slóvakía kæmist upp fyrir Ísland með stærri sigri en 1:0 í dag þar sem innbyrðis viðureignir hafa gildi fram yfir markatölu í undankeppninni.

Von er á hörkuleik þar sem erfitt er að brjóta varnarmúr slóvakíska landsliðsins á bak aftur. Fá mörk eru skoruð í leikjum þeirra og hafa þær aðeins skorað sex mörk og fengið á sig 10, þar af sjö í einum og sama leiknum í 7:0 tapi gegn Svíþjóð.

Því er ljóst að íslenska liðsins bíður mikið þolinmæðisverk. „Ég reikna með hörkuleik,“ sagði Jón Þór Hauksson landsliðsþjálfari.

„Þetta slóvakíska lið er öflugt varnarlega. Þær eru þéttar og það getur verið erfitt að spila sig í gegnum þær en við þurfum að reyna að spila inn á þeirra veikleika. Það eru veikleikar í þessu liði og við ætlum að nýta okkur þá,“ bætti hann við.

„Við þurfum að vera klár á okkar hlutum og það mun vera aðalatriðið fyrir okkur. Okkar undirbúningur hefur snúist um okkar lið og að ná okkar takti. Að ná því besta út úr okkar liði,“ sagði Jón Þór einnig.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert