Sæti á EM tryggt í fjórða sinn

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar sigurmarkinu.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fagnar sigurmarkinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ísland lauk keppni í undankeppni EM kvenna í knattspyrnu með 1:0-sigri í Ungverjalandi í gær og árangur liðsins tryggir því keppnisrétt í lokakeppni EM. Ísland keppir á EM sumarið 2022 en lokakeppninni var frestað um eitt ár þegar dagskrá Knattspyrnusambands Evrópu tók að riðlast vegna heimsfaraldursins. Ísland komst í lokakeppnina í fyrsta skipti árið 2009 og hefur fylgt því eftir þrívegis því Ísland var einnig með 2013 og 2017. Svíþjóð vann F-riðil Íslands í undankeppninni en Ísland hafnaði í 2. sæti og rakaði saman 19 stigum í átta leikjum. Þau lið sem unnu sína riðla fara beint í lokakeppnina og þrjú þeirra liða sem höfnuðu í 2. sæti. Þegar árangur þeirra níu liða sem hafna eða geta hafnað í 2. sæti í riðlakeppninni er borinn saman er öruggt að Ísland er eitt þriggja liða með bestan árangur.

Skagamaðurinn Jón Þór Hauksson hefur lent í alls kyns mótvindi eftir að hann tók við starfi landsliðsþjálfara en þó sérstaklega vegna kórónuveirunnar. Hann stóðst prófið og skilar liðinu í lokakeppnina en með brotinn fingur og mögulega háan blóðþrýsting vegna spennunnar á hliðarlínunni. Jón Þór sýndi vissan kjark þegar hann setti unga leikmenn í byrjunarliðið í haust. Með þessu hugsaði hann ef til vill einhverja leiki fram í tímann því nú er eitt og hálft ár í lokakeppnina. Á þeim tíma geta leikmenn í kringum tvítugt tekið miklum framförum. Leikmennirnir úr Breiðabliki voru til dæmis frekar litlar í sér gegn París St. Germain fyrir ári en hafa styrkt sig töluvert líkamlega á einu ári. Hversu góðar verða Sveindís, Alexandra, Agla María, Hlín, Karólína Lea og fleiri orðnar eftir eitt og hálft ár?

Íslenska landsliðið gerði það sem þurfti til að vinna leikinn í Ungverjalandi í gær en leikurinn reyndist ekki auðveldur fyrir íslenska liðið. Lið Íslands er sannarlega sterkara en lið Ungverjalands en ungverska liðið nálgaðist leikinn skynsamlega. Liðið var agað og skipulagið nokkuð gott sem gerði það að verkum að íslenska liðið þurfti að hafa verulega fyrir því að skora.

Hafa þurfti fyrir sigrinum

Íslenska landsliðið hefur verið í þeirri stöðu í rúman áratug að vera fyrir fram sterkari aðilinn í leikjum sem þessum, þar sem andstæðingurinn er í lægri styrkleikaflokki. Leikir þar sem til þess er ætlast að Ísland vinni. Takist það ekki er strembið að komast í lokakeppni EM eins og liðið hefur ítrekað gert. Stundum er bara meira en að segja það að landa sigri í slíkum leikjum og leikurinn í gær var dæmi um það.

Þar spilar sjálfsagt margt inn í. Leikmenn á Íslandi hafa ekki getað æft með eða spilað í langan tíma ef frá er talin tímabundin undanþága sem Valur fékk. Leikið var í miklum kulda í gær sem gæti hafa haft áhrif en svo hefur spennan sagt til sín þar sem úrslitin í riðlakeppninni voru um það bil að ráðast. Við þessar aðstæður er ágætt að geta teflt fram leikmönnum úr sömu liðunum. Leikmenn sem þekkjast það vel að það vegur aðeins upp á móti skorti á leikæfingu. Fjórar úr Blikum tóku þátt í leiknum og fimm úr Val auk þess sem Berglind Björg lék með þeim í Breiðabliki fyrr í sumar.

Sjáðu greinina um afrek íslenska liðsins í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert