Ísland mætir þremur stórþjóðum í febrúar

Íslenska byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Svíum á Laugardalsvellinum í haust.
Íslenska byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Svíum á Laugardalsvellinum í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir þremur af nítján bestu landsliðum heims á alþjóðlegu móti sem haldið verður í Sedan í Frakklandi í febrúar.

Íslenska liðið leikur gegn Frökkum 17. febrúar, Noregi 20. febrúar og Sviss 23. febrúar en þessi lið eru í þriðja, ellefta og nítjánda sæti á heimslista FIFA.

Í tilkynningu frá KSÍ kemur fram að þetta verði fyrstu leikir liðsins undir stjórn nýs þjálfara en fastlega er búist við því að Þorsteinn Halldórsson, sem hefur þjálfað Breiðablik undanfarin ár, verði ráðinn í starfið á næstu dögum.

Íslenska liðið býr sig undir lokakeppni EM sem fram fer á Englandi sumarið 2022 og þetta eru fyrstu leikir þess frá því það tryggði sér sæti þar 1. desember sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert