Breytt vinnubrögð hjá Íslandsmeisturunum

Heimir Guðjónsson og Birkir Már Sævarsson.
Heimir Guðjónsson og Birkir Már Sævarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarar karla í knattspyrnu í Val brydda nú upp á nýjungum í undirbúningi sínum fyrir Íslandsmótið í knattspyrnu. Í það minnsta nýjungum hérlendis en tvo daga í viku æfir liðið tvisvar á dag. Eru dagarnir þá líkari því sem gerist hjá atvinnuliðum erlendis heldur en íslenskum liðum því leikmennirnir halda hópinn á Hlíðarenda þar til síðari æfingunni lýkur.

Valsmenn ætla að láta á þetta reyna í átta vikur en segja að tíminn verði að leiða í ljós hverju þessar breytingar skila eða hversu miklu.

Morgunblaðinu er ekki kunnugt um að íslenskt lið hafi farið þessa leið fyrr og hafði blaðið samband við Valsmenn til að forvitnast um þessa nálgun.

„Ég hef oft sagt að við á Íslandi þurfum að æfa meira ef við viljum nálgast hin liðin á Norðurlöndunum,“ sagði þjálfarinn Heimir Guðjónson þegar Morgunblaðið spurði hann út í málið.

„Kveikjan að þessu var sú að við í þjálfarateyminu settumst niður með þeim sem stjórna félaginu að loknu síðasta keppnistímabili. Við gerðum upp síðasta tímabil og í þessum samræðum fóru menn að velta fyrir sér hvernig mætti bæta liðið og gera það betur samkeppnishæft. Við ræddum þetta fram og til baka og ákváðum að prófa þetta í átta vikur. Við sjáum svo til hvort þetta skili okkur einhverju þegar upp er staðið.“

Heimir segir að hópurinn sé saman á Valssvæðinu frá klukkan 9 á morgnana og fram yfir klukkan 16. „Menn mæta klukkan 9 í Fjósið og þar er morgunmatur og í framhaldinu er æfing frá kl. 10 til 11:30. Hádegismatur er klukkan 12 og í framhaldinu hafa menn lausan tíma til klukkan 14:30 þegar síðari æfingin fer fram. Þarna á milli geta menn hvílt sig eða sinnt vinnu og námi. Eða bara farið í pílukast, spilað Play Station eða hvað það er sem ungir menn gera nú til dags. Seinni æfingunni lýkur um klukkan 16 og menn eru því á svæðinu frá kl. 9 til 16-16:30 um það bil. Þeir losna þá við að æfa um kvöldmatarleytið. Svona höfum við þetta á þriðjudögum og fimmtudögum en aðra daga æfum við seinnipart dags eins og við erum vanir að gera. Leikirnir á undirbúningstímabilinu eru yfirleitt um helgar.

Við ákváðum að kýla á þetta og byrja. Við eigum örugglega eftir að gera einhver mistök á leiðinni og reynum þá bara að betrumbæta og gera eins vel og mögulegt er. Aðstaðan hjá Val er góð og til dæmis er gott að geta nýtt aðstöðuna í Fjósinu. Við erum ánægðir með hvernig þetta fer af stað en svo þurfum við að finna út hvað hentar best.“

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert