Þorsteinn ráðinn þjálfari kvennalandsliðsins

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Þorsteinn Halldórsson hefur verið ráðinn þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu í stað Jóns Þórs Haukssonar sem lét af störfum í desember.

KSÍ skýrði formlega frá ráðningunni í dag en ljóst hefur verið um skeið að Þorsteinn myndi taka við liðinu eftir að viðræður við Elísabetu Gunnarsdóttur runnu út í sandinn. Þar með þarf Breiðablik að leita sér að nýjum þjálfara í stað Þorsteins.

Þorsteinn er 52 ára gamall og hefur náð frábærum árangri með Breiðablik undanfarin sex ár en liðið hefur þrisvar orðið Íslandsmeistari undir hans stjórn, síðast á nýliðnu ári. 

KSÍ segir um Þorstein á heimasíðu sinni:
Þorsteinn, sem er fæddur árið 1968, er reynslumikill þjálfari með UEFA A þjálfaragráðu. Þorsteinn hafði þjálfað hjá KR í fimm ár þegar hann tók við meistaraflokksliði kvenna hjá Breiðabliki árið 2014, en hafði áður m.a. starfað hjá Þrótti og Haukum. Hann stýrði liði Breiðabliks til Íslandsmeistaratitla árin 2015, 2018 og 2020, og til bikarmeistaratitla árin 2016 og 2018. Liðið komst einnig í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar árið 2019. Þorsteinn á sjálfur að baki yfir 200 leiki, þar af 150 í efstu deild, í meistaraflokki með Þrótti N., KR, FH og Þrótti R. og hefur leikið fyrir U19 og U21 landslið Íslands.

Ásmundur Haraldsson verður aðstoðarþjálfari liðsins á nýjan leik en hann gegndi því starfi áður á árunum 2013 til 2018. Hann var síðan aðstoðarþjálfari karlaliðs FH.

Fyrstu verkefni landsliðsins á árinu 2021 eru þrír leikir á alþjóðlegu móti í Sedan í Frakklandi dagana 17. til 23. febrúar. Þar leikur Ísland gegn Frakklandi, Sviss og Noregi.

Það er liður í undirbúningi liðsins fyrir undankeppni HM sem hefst í haust, sem og úrslitakeppni EM sem fram fer á Englandi sumarið 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert