Hundfúll með að tapa

Þorsteinn Halldórsson stýrði Íslandi í fyrsta skipti í dag.
Þorsteinn Halldórsson stýrði Íslandi í fyrsta skipti í dag. mbl.is/Kris

„Ég er hundfúll með að tapa, það er nokkuð sem maður vill ekki venjast. Ég var sáttur með margt og það er margt jákvætt,“ sagði Þorsteinn Halldórsson þjálfari kvennalandsliðsins í fótbolta á blaðamannafundi eftir 0:1-tap Íslands gegn Ítalíu í vináttuleik ytra í dag. 

Reynslulitlar landsliðskonur á borð við Cecilíu Rán Rúnarsdóttur og Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur fengu tækifærið í byrjunarliðinu í dag.

„Við ætlum að gefa leikmönnum tækifæri og gefa þeim séns. Partur af því er að gefa ungum leikmönnum séns og við erum að horfa lengra fram í tímann. Cecilía komst mjög vel frá þessu. Hún var örugg, þorði að spila framarlega og grípa inn í. Einstaka atriði máttu vera betri en annars var hún góð.“

Arianna Caruso skoraði sigurmarkið á 72. mínútu er hún vann einvígi í teignum, lék á Cecilíu í markinu og setti boltann í netið. „Ég væri til í að sjá þetta aftur. Ég veit ekki hvort það var brotið á Guðnýju, en þær voru fyrri í frákastið eftir skalla. Þetta getur gerst í fótbolta. Andstæðingur var fyrri til að bregðast við,“ sagði Þorsteinn. 

Hann á von á breytingum á byrjunarliði Íslands fyrir seinni leik liðanna á þriðjudaginn kemur. 

„Það verður slatti af breytingum. Við reynum að dreifa þessu og við gerðum skiptingar í hálfleik til að dreifa álaginu. Skiptingarnar höfðu ekkert með frammistöðu að gera. Glódís og Karólína voru flottar þótt ég hafi tekið þar af velli í hálfleik,“ sagði Þorsteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert