Þegar Haukarnir heilsuðu prinsinum í Windsor

Filippus prins tekur í hönd Lofts Eyjólfssonar, leikmanns Hauka. Í …
Filippus prins tekur í hönd Lofts Eyjólfssonar, leikmanns Hauka. Í fréttinni kemur fram hverjir hinir leikmennirnir eru. Ljósmynd/Pétur Árnason

Þegar knattspyrnulið Hauka bjó sig undir að leika í efstu deild karla í fyrsta skipti fyrir rúmlega fjórum áratugum hitti það Filippus Bretaprins, eiginmann Elísabetar drottningar, á heimaslóðum hans í Windsor.

Hann lést á dögunum, 99 ára gamall, og fer útför hans fram með viðhöfn á laugardaginn kemur.

Haukar fóru í æfingaferð til Englands um páskana árið 1979. Þar léku þeir meðal annars gegn utandeildaliðinu Windsor & Eaton sem hefur aðsetur í konunglega bænum Windsor í vesturkanti London. Leikið var á Stag Meadow, leikvangi félagsins.

Þessi 30 þúsund manna bær er frægastur fyrir Windsor-kastala, sem er einn af opinberum bústöðum Bretadrottningar.

Hafnfirðingunum að óvörum mætti prinsinn á leikinn og heilsaði upp á leikmenn fyrir leikinn. Þar tók Pétur Árnason formaður knattspyrnudeildar Hauka meðfylgjandi mynd en á henni má sjá prinsinn heilsa Lofti Eyjólfssyni, einum öflugasta leikmanni Haukaliðsins um árabil.

Daníel Gunnarsson fyrirliði Hauka stendur hjá prinsinum og kynnir leikmennina. Hann er faðir Helga Vals Daníelssonar, núverandi leikmanns Fylkis.

Hvor sínu megin við Loft eru síðan leikmennirnir Ólafur Jóhannesson, síðar m.a. landsliðsþjálfari karla og þjálfari FH og Vals, og Sigurður Aðalsteinsson, faðir Gylfa Þórs Sigurðssonar, leikmanns Everton og íslenska landsliðsins.

Vinstra megin sést í þá Örn Bjarnason markvörð, Guðmund Sigmarsson og Lárus Hauk Jónsson og lengst til hægri er Valur Helgason.

Leikurinn endaði 3:3 þar sem Sigurður Aðalsteinsson, Steingrímur Hálfdánarson og Guðmundur Sigmarsson skoruðu mörk Hauka. Í sömu ferð sigruðu þeir Maidenhead, 1:0, þar sem Svavar Svavarsson skoraði sigurmarkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert