Á öndverðum meiði

Thomas Mikkelsen og Brynjar Hlöðversson eigast við í leiknum í …
Thomas Mikkelsen og Brynjar Hlöðversson eigast við í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Breiðablik vann upp tveggja marka forystu til að kreista fram 3:3-jafntefli gegn nýliðum Leiknis úr Reykjavík í annarri umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í Breiðholtinu í kvöld. Jöfnunarmarkið kom á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Danski framherjinn Thomas Mikkelsen opnaði markareikning sinn fyrir sumarið þegar hann kom Blikum yfir á 27. mínútu í kjölfar hornspyrnu. Oliver Sigurjónsson átti þá fyrirgjöf fyrir markið og Mikkelsen, á fjærstönginni, skallaði í netið.

Heimamönnum tókst hins vegar að jafna metin fyrir hálfleik, Máni Austmann Hilmarsson átti þrumuskot við vítateigslínuna í þverslá og inn, á 45. mínútu. Staðan 1:1 í hléinu.

Leiknismenn gerðu svo gott betur á 56. mínútu þegar Svíinn Emil Berger kom þeim í forystu. Hann rændi þá Finn Orra Margeirsson boltanum fyrir utan vítateig Blika og vippaði knettinum laglega í markið, enda Anton Ari Einarsson langt út úr marki sínu.

Leiknismenn fagna fyrsta marki sínu í leiknum í kvöld.
Leiknismenn fagna fyrsta marki sínu í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Staðan varð svo 3:1 á 66. mínútu. Sævar Atli Magnússon slapp í gegnum vörn Blika eftir laglega stungusendingu Mána en áður en hann kom skoti að marki braut Róbert Orri Þorkelsson á honum inn í vítateig, vítaspyrna dæmd. Sævar fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi.

Blikar voru þó ekki dauðir úr öllum æðum og minnkuðu muninn á 73. mínútu. Jason Daði Svanþórsson gerði það, skoraði úr þröngu færi hægra megin við vítateiginn en Guy Smit náði ekki að bjarga í markinu.

Þeim tókst svo að kreista fram jöfnunarmark á lokamínútu venjulegs leiktíma. Árni Vilhjálmsson átti þá fastan skalla að marki sem Smit varði út í teiginn. Jason Daði var þar fyrstur í knöttinn og skoraði úr frákastinu, aftur úr þröngu færi.

Blikar fagna einu marka sinna í kvöld.
Blikar fagna einu marka sinna í kvöld. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Sumarið er rétt að byrja

Sérfræðingar Morg­un­blaðsins og mbl.is voru á öndverðum meiði um horfur þessara tveggja liða á Íslandsmótinu í ár. Samkvæmt spánni enda nýliðar Leikn­is úr Reykja­vík í 12. og síðasta sæti úr­vals­deild­arinnar í sumar. Sú spá var ekki óvarleg, enda Leiknismenn að hefja aðeins sitt annað tímabil í efstu deild og það með leikmannahóp sem býr yfir lítilli reynslu í efstu deild. Enginn leikmaður liðsins hefur náð að spila 20 leiki í efstu deild á ferlinum.

Aftur á móti verður ekki hjá því horft að gríðarleg stemning er í kringum félagið og ljóst, eftir þessa fyrstu tvo leiki, að Breiðhyltingar eru með samstilltan hóp. Fyrirliðinn ungi, Sævar Atli, skoraði sitt fyrsta mark í sumar og því kominn á blað. Það er gríðarlega mikilvægt enda þurfa nýliðar í efstu deild að hafa leikmann sem getur skorað eins og 10 til 12 mörk yfir keppnistímabilið.

Á öndverðum meiði er svo lið Breiðabliks, skipað gríðarlega öflugum leikmönnum, og það lið sem flestir telja að geti veitt Val mestu samkeppnina um Íslandsmeistaratitilinn samkvæmt fyrrnefndri spá. Sú spá var heldur ekki óvarleg.

Blikar enduðu í fjórða sæti í fyrra en þeirra helsti dragbítur var að liðið fékk á sig urmul af klaufalegum mörkum og virtist oft vanta stöðugleika í spilamennskuna. Nú er liðið á sínu öðru ári undir stjórn þjálfarans, Óskars Hrafns Þorvaldssonar. Þá tókst að auka breidd leikmannahópsins töluvert. Árni Vilhjálmsson kom til að styrkja sóknarleikinn og Finnur Orri Margeirsson sneri heim með mikla reynslu inn á miðjuna.

Eftir tvo leiki eru Blikar hins vegar ekki með nema eitt stig. Og hvað varð þeim að falli í kvöld? Klaufaskapur í vörninni. Hösk­uld­ur Gunn­laugs­son, fyr­irliði Breiðabliks, hafði hins vegar á réttu að standa í samtali við mbl.is í kvöld þegar hann sagði: „Það þýðir ekk­ert að fara í volæði og krísu, það eru bara tveir leik­ir af 22 bún­ir.“

Það eru nefnilega bara tvær umferðir búnar. Leiknismenn þurfa að halda áfram að byggja á þeirri stemningu sem er til staðar og Blikar þurfa að snúa sinni byrjun við. Spáin góða getur enn ræst, en hún gæti líka algjörlega misst marks.

Leiknir R. 3:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert