Dramatískur sigur Valsmanna gegn HK

Sigurður Egill Lárusson Valsmaður með Atla Arnarson HK-ing á hælunum.
Sigurður Egill Lárusson Valsmaður með Atla Arnarson HK-ing á hælunum. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Almarr Ormarsson reyndist hetja Valsmanna þegar liðið tók á móti HK í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Origo-vellinum á Hlíðarenda í 3. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 3:2-sigri Valsmanna í hörkuleik en Almarr skoraði sigurmark leiksins á lokamínútu venjulegs leiktíma.

Stefan Alexander Ljubicic kom HK yfir á 35. mínútu með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Valgeirs Valgeirssonar en Hannes Þór Halldórsson, markvörður Valsmanna, var illa staðsettur í markinu og hefði klárlega átt að gera betur.

Það tók Valsmenn fimm mínútur að jafna metin en Sigurður Egill Lárusson átti þá frábæra fyrirgjöf á Pedersen sem fór fram hjá Arnari Frey Ólafssyni í marki HK-inga og lagði boltann snyrtilega í netið.

Christian Köhler kom Valsmönnum yfir á nýjan leik með laglegu marki, beint úr aukaspyrnu af 25. metra færi á 79. mínútu en Arnar Freyr í marki HK-inga hreyfði sig ekki á línunni.

HK-ingar voru ekki lengi að jafna metin en Arnþór Ari Atlason átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri inn í teiginn. Valsmönnum gekk illa að koma boltanum frá og boltinn datt fyrir Jón Arnar Barðdal sem þrumaði honum með vinstri fæti í hornið fjær.

Almarr skoraði svo sigurmark leiksins á 90. mínútu eftir mikla pressu Valsmanna en boltinn datt þá fyrir hann á D-boganum og hann hamraði boltanum með viðstöðulausu skoti sem Arnar Freyr í marki HK-inga réð ekki við.

Valsmenn eru áfram í þriðja sæti deildarinnar með 7 stig, líkt og FH, KA og Víkingur.

HK-ingar eru hins vegar í áttunda sætinu með 2 stig eftir, líkt og Fylkir og Leiknir úr Reykjavík.

Almarr Ormarsson tryggði Valsmönnum sigur á Hlíðarenda.
Almarr Ormarsson tryggði Valsmönnum sigur á Hlíðarenda. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Ógnvænleg breidd á Hlíðarenda

Íslandsmeistararnir voru í vandræðum sóknarlega í kvöld, þrátt fyrir að skora þrjú mörk.

Þeim gekk illa að skapa sér afgerandi marktækifæri allan leikinn og þeir áttu í raun bara tvö skot á markið í síðari hálfleik, sem bæði enduðu í netinu.

HK-ingar hljóta að vera gríðarlega vonsviknir með að fá ekkert út úr leiknum því þegar allt kemur til alls þá áttu þeir mun hættulegri marktækifæri.

Þá varðist liðið gríðarlega vel og mörkin tvö sem þeir fengu á sig í síðari hálfleik voru í raun mörk sem lítið var hægt að gera við, beint úr aukaspyrnu og þrumufleygur utan teigs.

Valsmenn fá stóran plús í kladdann fyrir að klára leik sem þeir voru í raun frekar slakir í og það gera alvöru meistarar.

Á sama tíma virðist vera einhver Valsgrýla í Kópavoginum því þeim hefur einfaldlega gengið illa að landa sigri gegn Val, þótt þeir hafi verið sterkari aðilinn í leikum liðanna síðustu ár.

Þegar líða fór á leikinn þá sást mjög greinilega hversu mikla breidd Valsmenn hafa. Þeir gátu skipt inn mönnum á borð við Almarr Ormarsson, Andra Adolphsson og Guðmund Andra Tryggvason.

HK-ingar voru ekki jafn heppnir þar sem varamönnum þeirra tókst ekki að hafa jafn mikil áhrif á leik síns lið. Þá verða leikmenn liðsins að nýta færin sín betur fyrir framan markið því það eru jú mörkin sem vinna leiki.

Breiddin er með Valsmönnum í liði í þessu ógnvænlega leikjaálagi í maímánuði og Íslandsmeistararnir gætu stigið stórt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum í þessum mánuði ef allir haldast heilir á Hlíðarenda.

Valur 3:2 HK opna loka
90. mín. Almarr Ormarsson (Valur) skorar 3:2 - ALMARRRR!!! Valsmenn með mikla pressu sem ber loksins árangur. Boltinn dettur út í teiginn þar sem Almarr hamrar honum í netið af D-boganum! Væntanlega sigurmarkið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert