Stjarnan áfram á beinu brautinni

Hilmar Árni Halldórsson fagnar marki sínu gegn HK í Garðabænum.
Hilmar Árni Halldórsson fagnar marki sínu gegn HK í Garðabænum. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Stjarnan vann sterkan 2:1 sigur á HK í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld. Bæði mörk liðsins komu í fyrri hálfleik áður en HK minnkaði muninn í síðari hálfleik.

Björn Berg Bryde átti fyrstu tilraun fyrri hálfleiks á 9. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar ofan á markið.

Á 24. mínútu tóku heimamenn í Stjörnunni forystuna. Fyrirgjöf Þórarins Inga Valdimarssonar var þá skölluð frá, Heiðar Ægisson reyndi skot sem misheppnaðist herfilega en varð þess í stað að frábærri fyrirgjöf með jörðinni sem Hilmar Árni átti í engum vandræðum með að setja í netið af stuttu færi, 1:0.

Örskömmu síðar, á 26. mínútu, komust HK-ingar nálægt því að jafna metin. Jón Arnar Barðdal fékk þá góða sendingu inn á vítateiginn frá Birki Val Jónssyni, Jón Arnar lagði boltann út á Birni Snæ Ingason sem var einn fyrir miðjum teignum en hitti boltann afleitlega úr kjörstöðu og skotið lang framhjá.

Þremur mínútum síðar tvöfölduðu Stjörnumenn forystuna. Þorsteinn Már Ragnarsson átti þá laglega fyrirgjöf frá hægri kanti yfir á fjærstöngina þar sem Emil Atlason kom beinlínis fljúgandi og skoraði með glæsilegum flugskalla, 2:0.

Á 34. mínútu átti Ásgeir Börkur Ásgeirsson laglega skiptingu yfir á Arnþór Ara Atlason sem tók boltann á lofti í fyrsta hægra megin í teignum, hugsanlega var um fyrirgjöf að ræða en boltinn fór rétt framhjá markinu.

Á 39. mínútu var danski sóknartengiliðurinn Magnus Anbo hársbreidd frá því að skora þriðja mark Stjörnunnar. Hann fékk þá mjög góða fyrirgjöf frá Heiðari frá hægri kanti, náði frábærum skalla sem small í þverslánni og fór niður á marklínuna áður en Leifur Andri hreinsaði frá.

Stjörnumenn voru ekki hættir og fyrirliðinn Brynjar Gauti Guðjónsson átti stórhættulegan skalla á 42. mínútu eftir hornspyrnu Hilmars Árna, skallinn stefndi rakleitt í bláhornið en Birkir Valur bjargaði á ögurstundu á marklínu.

Staðan því 2:0, Stjörnumönnum í vil, í hálfleik.

Hilmar Árni gerði sig líklegan snemma í fyrri hálfleik en gott skot hans utarlega úr teignum beint í andlitið á Leifi Andra Leifssyni, fyrirliða HK.

Skömmu síðar, á 52. mínútu, komst Valgeir Valgeirsson í gott færi inni í vítateig Stjörnumanna eftir afar laglegt samspil en skot hans í varnarmann.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta en skiptust liðin á að sækja.

Á 69. mínútu átti Heiðar góða fyrirgjöf yfir á Emil sem skallaði boltann út í teiginn þar sem Þorsteinn Már kom á ferðinni og reyndi þrumuskot með vinstri fæti úr kjörstöðu en það fór framhjá markinu.

Fjörugar tvær mínútur

Á 73. mínútu færðist heldur betur fjör í síðari hálfleikinn þegar HK minnkaði muninn. Varamennirnir Örvar Eggertsson og Stefan Alexander Ljubicic, sem voru báðir nýkomnir inn á, áttu markið skuldlaust.

Örvar reyndi þá fyrirgjöf sem Þórarinn Ingi komst í veg fyrir, Örvar fékk boltann aftur við endalínuna og gaf lága sendingu á nærstöngina þar sem Stefan Alexander beið átekta og kláraði af örstuttu færi, 2:1.

Um einni hálfri mínútu síðar fengu Stjörnumenn vítaspyrnu þegar Ásgeir Börkur kom of seint í Þorstein Má innan teigs. Hilmar Árni steig á vítapunktinn en Arnar Freyr Ólafsson fór í rétt horn og varði vel til hliðar.

Ekki gerðist margt eftir þennan fjöruga kafla en á fyrstu mínútu uppbótartíma venjulegs leiktíma náði Guðmundur Þór Júlíusson skalla eftir hornspyrnu Ívars Arnar Jónssonar sem fór af varnarmanni og endaði boltinn að lokum í fangi Haralds.

Þar við sat og sterkur sigur Stjörnunnar staðreynd.

Frábær fyrri hálfleikur Garðbæinga

Stjarnan lék frábærlega í fyrri hálfleik og hefði hæglega getað skorað fleiri en mörkin tvö sem þeir skoruðu í honum. Á meðan var HK heillum horfið.

Sigurinn var að lokum verðskuldaður þar sem Stjörnumenn fengu áfram sín færi í síðari hálfleiknum, þar á meðal vítaspyrnu sem fór forgörðum, á meðan HK-ingar náðu ekki að koma sér í nægilega góðar skotstöður.

Innkoma Örvars Eggertssonar og Stefans Alexanders Ljubicic á 67. mínútu virkaði vissulega sem vítamínsprauta, enda sköpuðu þeir mark HK í sameiningu skömmu síðar, en liðinu auðnaðist þó ekki að fylgja markinu eftir. 

Þar kom einnig til prýðis varnarleikur Stjörnumanna fyrir og eftir mark HK. Síðari hálfleikurinn var talsvert betri hjá HK í samanburði við þann fyrri en liðið tók of seint við sér og því fór sem fór.

Stjarnan fer með sigrinum upp í 8. sæti deildarinnar og er nú með 10 stig eftir 10 leiki.

HK fer niður í 11. sæti, fallsæti, og er áfram með 6 stig.

Stjarnan 2:1 HK opna loka
90. mín. HK fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert