Fyrsta brottvísunin eftir mörg hundruð leiki

Málfríður Erna Sigurðardóttir er uppalin í Val og var um …
Málfríður Erna Sigurðardóttir er uppalin í Val og var um tíma fyrirliði Vals. mbl.is/Valgarður Gíslason

Ein leikjahæsta kona efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu frá upphafi mátti í kvöld sætta sig við að vera rekin af velli í fyrsta skipti. 

Málfríður Erna Sigurðardóttir fékk sitt annað gula spjald á 90. mínútu í leik Stjörnunnar og ÍBV í Garðabæ í kvöld og þar með rauða spjaldið. 

Málfríður Erna hefur verið að í liðlega tvo áratugi og unnið fjölda bikara. Hefur hún leikið 331 meistaraflokksleik með Val, Breiðabliki og Stjörnunni, þar af 249 í efstu deild, auk þess að spila 33 A-landsleiki. 

Ef skoðaður er spjaldaferill Málfríðar Ernu á vef KSÍ kemur þar fram að um fyrstu brottvísun sé að ræða hjá henni. Gulu spjöldin voru raunar ekki nema tuttugu og fjögur talsins fyrir leikinn í kvöld þar sem Ásmundur Þór Sveinsson gaf henni gula spjaldið tvívegis. 

Væri Málfríður Erna yfirleitt í fremstu víglínu væri ekki endilega um mikil tíðindi að ræða en þessar tölur eru býsna merkilegar í ljósi þess að hún hefur iðulega leikið í hjarta varnar sem miðvörður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert