Fjórir leikmenn smitaðir í Ólafsvík – „afleit staða“

Guðjón Þórðarsson, þjálfari Víkings frá Ólafsvík, ásamt Jóhanni Péturssyni formanni …
Guðjón Þórðarsson, þjálfari Víkings frá Ólafsvík, ásamt Jóhanni Péturssyni formanni félagsins. Ljósmynd/Þröstur Albertsson

Guðjón Þórðarson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Víkingi frá Ólafsvík, segir stöðuna hjá liðinu afar erfiða vegna fjölda kórónuveirusmita sem hafa komið upp í leikmannahópi þess að undanförnu.

„Það eru fjórir smitaðir og í einangrun. Tveir þeirra eru heima við og tveir eru í sóttvarnarhúsi vegna aðstæðna,“ sagði Guðjón í samtali við Valtý Björn Valtýsson í hlaðvarpsþætti hans, Mín skoðun, í dag.

Aðrir leikmenn liðsins og þjálfaralið eru í sóttkví og tveir þeirra gætu þurft að vera lengur í sóttkví að sögn hans.

„Hinir eru í sóttkví. Ég er í sóttkví innan veggja heimilisins. Tveir [leikmenn] eru fyrirsjáanlega í lengri sóttkví vegna nærveru sinnar við smitaðan einstakling. Þeir verða prófaðir á föstudaginn en við hinir á morgun,“ sagði Guðjón og bætti við:

„Það eru þá raunverulega sex leikmenn sem eru úr leik.“

Valtýr Björn sagði það vera ansi stóran pakka og Guðjón samsinnti því:

„Já, sérstaklega þegar þú ert bara með 14-15 leikmenn, þá er þetta orðið meira en „scary!““

Staðan er því bersýnilega erfið fyrir Ólafsvíkinga, sem berjast í bökkum í 1. deildinni þar sem liðið er aðeins með tvö stig eftir 12 umferðir og er 10 stigum frá öruggu sæti.

„Við eigum að fara í sýnatöku í fyrramálið. Við fáum þá að vita stöðuna á þeim sem eru rólfærir. Þetta er afleit staða en maður verður bara að vona það besta,“ sagði Guðjón einnig.

Nýjasta þáttinn af Minni skoðun má hlusta á í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert