Þróttarar í vænlegri stöðu - dýrmætt jöfnunarmark Leiknis

Sæþór Olgeirsson skorar fyrir Völsung úr vítaspyrnu gegn Reyni í …
Sæþór Olgeirsson skorar fyrir Völsung úr vítaspyrnu gegn Reyni í dag. Ljósmynd/Hafþór Hreiðarsson

Þrótt­ur frá Vog­um styrkti stöðu sína á toppi 2. deild­ar karla í knattspyrnu með 2:1-sigri á KF í 16. umferðinni í dag. Þróttarar eru áfram með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar þegar sex umferðir eru óleiknar.

Unnar Ari Hansson og Alexander Helgason komu heimamönnum í tveggja marka forystu með marki í hvorum hálfleiknum áður en Cameron Botes minnkaði muninn fyrir gestina í blálokin.

Þá er Völsungur í öðru sæti með 30 stig, fimm á eftir Þrótti, eftir 4:1-sigur á Reyni frá Sandgerði í dag. Birkir Freyr Sigurðsson fékk rautt spjald í liði gestanna strax á 22. mínútu og eftir það virtist leikurinn einfaldur fyrir Völsung. Sæþór Olgeirsson skoraði tvö mörk á tveimur mínútum strax í kjölfarið og Jakob Héðinn Róbertsson og Arnar Pálmi Kristjánsson bættu við en þar á milli klóraði Magnús Þórir Matthíasson í bakkann fyrir gestina.

Kári og Leiknir frá Fáskrúðsfirði gerðu jafntefli, 2:2, í lykilleik í fallbaráttunni. Kári komst í 2:0 eftir 7 mínútur, Andri Júlíusson og  Marinó Ásgeirsson skoruðu. Stefán Ómar Magnússon minnkaði muninn fljótlega fyrir Leikni og Inigo Albizuri skoraði dýrmætt jöfnunarmark þeirra á þriðju mínútu í uppbótartíma leiksins.

Njarðvík lék botnlið Fjarðabyggðar grátt og sigraði 5:0. Aron Snær Ingason skoraði tvö mörk, Bergþór Ingi Smárason, Ari Már Andrésson og Arnar Helgi Magnússon eitt hver.

ÍR lagði KV 2:0 í Vesturbænum og KV missti þar með annað sætið í hendur Völsunga. Bergvin Fannar Helgason skoraði bæði mörkin í síðari hálfleik.

Magni sigraði Hauka 2:0 á Grenivík. Tómas Örn Arnarson og Guðni Sigþórsson skoruðu mörkin á síðustu 20 mínútum leiksins.

Staðan:

Þrótt­ur V. 35
Völsung­ur 30
KV 28
Njarðvík 26
KF 25
Magni 24
ÍR 22
Reyn­ir S. 20

Hauk­ar 19
Leikn­ir F. 15
Kári 9
Fjarðabyggð 5

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka