FH vann öruggan 5:0-sigur á Leikni úr Reykjavík í 17. umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, er liðin mættust á Kaplakrikavelli í kvöld. Þó leikurinn hafi lengi verið jafn voru heimamenn mikið öflugari á lokakaflanum.
FH-ingar hafa átt erfitt uppdráttar undanfarið og meðal annars tapað gegn neðstu tveimur liðum deildarinnar, 4:2 gegn HK og svo gegn ÍA í bikarnum á dögunum. Sumarið hefur verið erfitt í Hafnarfirðinum og liðið á köflum átt í hættu á að sogast niður í fallbaráttuna.
Nýliðar Leiknis hafa hins vegar fagnað góðu gengi í sumar og voru með 21 stig í 6. sæti fyrir leikinn í kvöld, komnir yfir 20 stiga múrinn fræga. Þá misstu þeir markaskorarann og fyrirliðann Sævar Atla Magnússon til Danmörku en hann var búinn að skora tíu mörk í úrvalsdeildinni í sumar. Ekkert mál, Leiknismenn fengu topplið Vals í heimsókn í næsta leik á eftir og unnu frækinn 1:0-sigur. Gengi þessara liða hefur því verið nokkuð ólíkt undanfarið en leikurinn var jafn lengst af.
Það var ekki fyrr en í lok fyrri hálfleiks að loks dró til tíðinda. Steven Lennon var þá með boltann utan teigs og renndi honum svo til Jónatans Inga Jónssonar hægra megin sem ætlaði að leika á Gyrðir Hrafn Guðbrandsson í teignum. Það endaði með því að Gyrðir braut á honum og Einar Ingi Jóhannsson dómari dæmdi vítaspyrnu, Leiknismönnum til mikils ama.
Lennon fór á punktinn og skoraði örugglega, staðan 1:0 í hálfleik, heimamönnum í vil. Gestirnir úr Breiðholtinu mættu svo grimmir til leiks eftir hlé og reyndu að kreista fram jöfnunarmark. Það kom því sem þruma úr heiðskíru lofti þegar staðan var allt í einu 2:0 á 55. mínútu. Jónatan Ingi tók þá við boltanum hægra megin, skar inn á völlinn framhjá varnarmanni og renndi svo knettinum í gegn á Matthías Vilhjálmsson sem skoraði í fjærhornið, yfirvegaður og öruggur. Þetta var fimmta deildarmark Matthíasar á tímabilinu og það í öðrum leiknum í röð sem hann skorar.
Þó Leiknismenn héldu áfram að spila ágætlega fengu þeir engu að síður annað mark í andlitið. Pétur Viðarsson skoraði það af stuttu færi eftir hornspyrnu Jónatans á 62. mínútu, kantmaðurinn búinn að koma að öllum þremur mörkum FH-inga.Morten Beck skoraði fjórða markið á 82. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Baldri Loga Guðlaugssyni.
FH-ingar ráku svo smiðshöggið á góðan sigur er Oliver Heiðarsson skoraði fimmta markið í lok venjulegs leiktíma af stuttu færi á fjærstönginni eftir fyrirgjöf Óskars Atla Magnússonar.
Með sigrinum fara FH-ingar upp fyrir Leikni og í 6. sætið þar sem þeir hafa nú 22 stig. Líklega hafa þeir kvatt falldrauginn endanlega nú. Leiknir á leik til góða, með sín 21 stig í 7. sæti en þeir hafa enn ekki unnið útileik í sumar, gert tvö jafntefli og tapað sex.