„Með drulluna langt upp á háls og ættum í raun að skammast okkar“

Birkir Már með boltann í leiknum í kvöld.
Birkir Már með boltann í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Birkir Már Sævarsson, leikmaður Vals, var ekki beint upplitsdjarfur eftir 1:4 tap liðsins á heimavelli gegn KA í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld.

Birkir Már kom Valsmönnum á bragðið snemma leiks og var hann jafn framan af. Eftir að KA skoraði annað mark sitt eftir rúmlega klukkutíma leik í kjölfar tveggja kjörinna marktækifæra Valsmanna var hins vegar ekki aftur snúið. Hvað fór úrskeiðis hjá Val í leiknum?

„Það er erfitt að segja núna en allavega í stöðunni 1:1 fengum við einhvern urmul af dauðafærum og vorum að spila ágætlega. Svo skora þeir og þá opnast leikurinn. Við þurfum að sækja mark og við bara gerum það ekki nógu vel. Þeir ganga á lagið og „breika“ á okkur,“ sagði Birkir Már í samtali við mbl.is eftir leik.

Spurður hvort stórt tapið gæti að einhverjum hluta skrifast á andlega hlið Valsmanna, sem hefur gengið illa í undanförnum leikjum, sagði hann:

„Já örugglega að einhverju leyti og líka að einhverju leyti vegna þess að við þurftum að sækja mark. Við vorum kannski svolítið opnir til baka og þetta var örugglega líka eitthvað andlegt. Þetta var bara drullulélegt.“

Tímabilið risa vonbrigði

Valur er í 5. sæti og á enn tölfræðilegan möguleika á þriðja sætinu, sem gæti gefið Evrópusæti. Í lokaumferðinni um næstu helgi á liðið leik gegn Fylki í Árbænum, þar sem heimamenn berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Þó að útlit sé fyrir að leikurinn muni skipta litlu máli fyrir Val sagði Birkir Már að liðið vildi vitanlega enda tímabilið með sigri í Árbænum eftir afar slæmt gengi að undanförnu.

„Já að sjálfsögðu viljum við vinna leik. Það er orðið langt síðan við unnum. Ég held að ég hafi aldrei lent í svona taphrinu á ferlinum liggur við. Við þurfum að fara upp á Fylkisvöll og vinna þann leik til þess að reyna að enda þetta á góðum nótum.

Það er það eina, að enda þetta á góðum nótum. Það gefur voða lítið annað en bara einhver þrjú stig sem skipta engu máli en við viljum náttúrlega fara heim í fríið með sigur.“

Hann sagði tímabilið í heild sinni gífurleg vonbrigði. „Já bara risa vonbrigði, við með drulluna langt upp á háls og ættum í raun að skammast okkar, allavega skammast ég mín alveg helling,“ sagði Birkir Már að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert