„Þá verður maður að koma inn á með látum“

Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn af miklum krafti í kvöld.
Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn af miklum krafti í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Nökkvi Þeyr Þórisson kom sem stormsveipur inn af varamannabekknum og skoraði eftir að hafa verið á vellinum innan við mínútu þegar KA vann frækinn 4:1 sigur gegn Val á Origo-vellinum í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld.

Nökkvi Þeyr kom inn á sem varamaður á 62. mínútu og skoraði með laglegu skoti á 63. mínútu og kom KA þannig í 2:1. Þá átti hann stóran þátt í þriðja marki KA á 76. mínútu þegar hann lagði boltann inn fyrir á Mark Gundelach sem renndi boltanum á Sebastiaan Brebels sem skoraði auðveldlega.

„Maður vill náttúrlega byrja alla leiki. Ég skoraði í seinasta leik og var á bekknum núna. Auðvitað er maður alltaf svekktur að fara á bekkinn en  þá verður maður bara að koma inn á með látum og sýna að maður eigi heima í liðinu og ég gerði það svo sannarlega í dag. Sýndi að ég ætti kannski skilið að byrja í næsta leik,“ sagði Nökkvi Þeyr í samtali við mbl.is eftir leik.

Með sigrinum fer KA upp í þriðja sæti deildarinnar, sem gæti reynst nóg til að tryggja liðinu Evrópusæti. „Ef þetta fer þannig að Víkingar vinna bikarinn þá gefur þriðja sætið Evrópusæti.

Þetta er ennþá svolítið kannski. Við stefnum á Evrópu. Það er alveg ljóst. Það eina sem við getum gert er að vinna næsta leik og svo kemur í ljós hvað gerist næst,“ sagði hann.

Spurður hvort KA-menn yrðu sáttir með tímabilið í heild sinni næðu þeir Evrópusæti sagði Nökkvi Þeyr: „Við vorum í toppbaráttunni megnið af sumrinu en töpuðum tveimur leikjum í röð á móti Breiðablik, sem drap vonir okkar um titilinn.

Ef við hefðum unnið þá tvo leiki hefði maður kannski getað látið sig dreyma um að fara alla leið en fyrst að þeir töpuðust þá er draumurinn bara að fara í Evrópu, reyna að gera okkar besta í stöðunni. En auðvitað ætluðum við alla leið, það er enginn vafi á því. Ég veit ekki hvort maður væri þá svekktur, það væri náttúrlega frábært að fara í Evrópu en manni langar alltaf í meira.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert