Verða Blikar Íslandsmeistarar í dag? Falla Skagamenn?

Breiðablik og Víkingur eru í slagnum um Íslandsmeistaratitilinn og spila …
Breiðablik og Víkingur eru í slagnum um Íslandsmeistaratitilinn og spila bæði klukkan 16.15 í dag. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Breiðablik á möguleika á að tryggja sér Íslandsmeistaratitil karla í fótbolta í annað skipti í sögunni í dag þegar fimm leikir fara fram í 21. og næstsíðustu umferð úrvalsdeildarinnar, Pepsi Max-deildar karla.

Blikar mæta til leiks gegn FH í Kaplakrika klukkan 16.15 með tveggja stiga forskot á Víkinga, sem á sama tíma mæta KR-ingum á Meistaravöllum. Breiðablik er með 44 stig gegn 42 stigum Víkinga, og auk þess er markatala Blikanna 18 mörkum betri en hjá Víkingum.

Það þýðir að verði Kópavogsliðið með þriggja stiga forskot fyrir lokaumferðina er nokkuð ljóst að Íslandsmeistaratitillinn verður í höfn, að öllu leyti nema formlega.

Sigur hjá Breiðabliki og stigamissir hjá Víkingum myndi sem sagt þýða að úrslitin væru endanlega ráðin í leikslok og Íslandsbikarinn yrði afhentur í Kópavogi í lokaumferðinni.

Víkingar verða því að vinna leik sinn í Vesturbænum, eða í það minnsta að fá jafnmörg stig og Blikar út úr umferðinni til þess að eiga möguleika á meistaratitlinum fyrir lokaumferðina, sem er leikin á laugardaginn kemur, 25. september. Þá eiga Blikar heimaleik við granna sína í HK og Víkingar eiga heimaleik við Leikni.

Valur og KA mætast í lykilleik í baráttunni um þriðja …
Valur og KA mætast í lykilleik í baráttunni um þriðja sætið. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Tvísýn barátta um Evrópusæti

Baráttan um Evrópusæti hefur mikið með bikarkeppnina að gera að þessu sinni því Ísland missir fyrir næsta tímabil eitt sæti í Evrópukeppni, þannig að aðeins þrjú íslensk lið verða með í Sambandsdeild Evrópu 2022-23. Tvö efstu lið deildarinnar ásamt bikarmeisturunum. 

Víkingar eru eftir í bikarnum ásamt Keflavík, ÍA og Vestra. Endi Víkingar í öðru tveggja efstu sæta deildarinnar, og verði jafnframt bikarmeistarar, mun þriðja sætið gefa þátttökurétt í Evrópukeppni. Verði annað lið en Víkingur bikarmeistari mun þriðja sætið ekki gefa neitt.

KR er með 38 stig, KA 36 og Valur 36 í baráttunni um þriðja sætið, enda þótt KR-ingar geti reyndar enn náð öðru sætinu af Víkingum.

Valur og KA mætast einmitt á Hlíðarenda klukkan 18.30 í kvöld og það getur reynst algjör lykilleikur í baráttunni um þriðja sætið, því þangað kemst sigurliðið, fari svo að KR tapi fyrir Víkingi.

ÍA og Fylkir mætast á Akranesi í uppgjöri neðstu liðanna …
ÍA og Fylkir mætast á Akranesi í uppgjöri neðstu liðanna í dag. mbl.is/Unnur Karen

Lykilleikur fallbaráttunnar á Akranesi

Síðast en ekki síst er gríðarlega hörð fallbarátta í deildinni þar sem Keflavík með 18 stig, HK með 17, Fylkir með 16 og ÍA með 15 stig berjast fyrir lífi sínu. Reyndar gæti annaðhvort Stjarnan og Leiknir sem bæði eru með 22 stig tæknilega séð enn fallið þó það sé afar langsótt enn sem komið er. 

ÍA og Fylkir mætast í uppgjöri botnliðanna á Akranesi klukkan 14 í dag og þar er allt undir hjá báðum liðum. Skagamenn eru með bakið uppvið vegg því ef þeir tapa leiknum í dag gætu þeir verið fallnir í leikslok, ef Keflavík fær á sama tíma stig gegn Leikni í Breiðholtinu en sá leikur hefst líka klukkan 14.

Ef Keflvíkingar tapa fyrir Leikni gæti leikur þeirra gegn ÍA í lokaumferðinni heldur betur orðið áhugaverður. 

Þó Skagamenn sitji á botninum eru þeir með örlögin að mestu í eigin höndum því þeir mæta Fylki og Keflavík, tveimur öðrum liðum í fallbaráttunni. Takist þeim að vinna báða leikina og komast í 21 stig eru yfirgnæfandi líkur á að þeir nái að halda sæti sínu í deildinni.

Leikir dagsins í dag eru semsagt þessir:

14.00 ÍA - Fylkir
14.00 Leiknir R. - Keflavík
16.15 FH - Breiðablik
16.15 KR - Víkingur R.
18.30 Valur - KA

Umferðinni lýkur síðan annað kvöld þegar HK tekur á móti Stjörnunni í Kórnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert