Valgeir tryggði tíu HK-ingum sigur - Fylkir fallinn

Stefan Alexander Ljubicic í baráttu við Daníel Laxdal í leiknum …
Stefan Alexander Ljubicic í baráttu við Daníel Laxdal í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

HK komst úr fallsæti úrvalsdeildar karla í knattspyrnu í kvöld með því að sigra Stjörnuna 1:0 í Kórnum í lokaleik 21. og næstsíðustu umferð deildarinnar.

Valgeir Valgeirsson skoraði markið á 79. mínútu, fjórum mínútum eftir að HK missti Birni Snæ Ingason af velli með rautt spjald.

Fyrir lokaumferðina er Keflavík með 21 stig, HK 20, ÍA 18 og Fylkir 16 stig. Fylkismenn eru fallnir með þessum úrslitum en Keflavík, HK og ÍA eru í fallslagnum og eitt þeirra fer niður.

HK-ingar náðu snemma undirtökum á vellinum, voru mun baráttuglaðari og ákveðnari, enda mun meira í húfi fyrir þá, og sóttu á köflum stíft að marki Garðbæinga í fyrri hálfleiknum. Birnir Snær Ingason hitti boltann illa í dauðafæri á markteig strax á 9. mínútu og Arnþór Ari Atlason komst í gott færi eftir sendingu Birnis á 16. mínútu en skaut framhjá markinu.

Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar varði vel skalla Guðmundar Þórs Júlíussonar á 18. mínútu og þurfti aftur að hafa nokkuð fyrir því að verja hörkuskot Atla Arnarsonar af 20 metra færi á 30. mínútu. Þá skaut Stefan Ljubicic yfir markið af stuttu færi á 34. mínútu eftir eina af mörgum rispum Birnis Snæs inn í vítateig Garðbæinga vinstra megin.

Stjarnan ógnaði sjaldan marki HK í fyrri hálfleik en Einar Karl Ingvarsson átti bestu tilraunina á 28. mínútu þegar hann skaut af 25 metra færi rétt yfir þverslána. Staðan var 0:0 í hálfleik.

Stjörnumenn reyndu að efla sóknarleik sinn í byrjun seinni hálfleiks þegar Ólafur Karl Finsen kom inn á fyrir miðjumanninn Magnus Anbo.

HK missti Leif Andra Leifsson fyrirliða meiddan af velli á 53. mínútu en varamaðurinn Örvar Eggertsson gerði strax vart við sig mínútu síðar þegar hann átti fast skot í hliðarnetið eftir skyndisókn HK.

Ívar Örn Jónsson átti hættulegt skot beint úr aukaspyrnu á 70. mínútu sem Haraldur Björnsson varði vel í horninu niðri.

Birnir fékk rautt spjald - mistök dómara?

HK varð fyrir gríðarlegu áfalli á 75. mínútu þegar Birnir Snær Ingason fékk sitt annað gula spjald á fjórum mínútum, fyrir meintan leikaraskap, en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson taldi hann hafa verið að reyna að fiska vítaspyrnu. Ekki bara áfall fyrir Kópavogsliðið að missa mann af velli, heldur að missa sinn besta sóknarmann í leikbann fyrir lokaumferðina.

Sjónvarpsupptökur Stöðvar 2 Sport sýndu nokkuð ótvírætt eftir leik að um mistök hjá Vilhjálmi dómara var að ræða.

En tíu HK-ingar svöruðu þessu á besta mögulega hátt á 79. mínútu. Stefan Ljubicic náði boltanum við endamörkin vinstra megin og renndi honum út á Ívar Örn Jónsson sem átti góða fyrirgjöf inn að markteig Stjörnunnar. Valgeir Valgeirsson fékk boltann hægra megin í vítateignum og skoraði með föstu skoti í hornið fjær, 1:0.

Stjörnumenn sóttu af krafti eftir markið en HK-ingar vörðust með kjafti og klóm og erfitt að sjá að þeir væru manni færri. Stjarnan náði ekki að skapa sér færi og HK-ingar fögnuðu gríðarlega sætum sigri í leikslok.

Sigur HK-inga var verðskuldaður. Þeir voru sterkari aðilinn í leiknum í heild, voru baráttuglaðir og skipulagðir og gáfu Stjörnunni engin færi á sér. Garðabæjarliðið átti aðeins þrjú markskot allan leikinn, öll utan vítateigs og ekkert þeirra hitti markið hjá Arnari Frey Ólafssyni markverði HK sem átti náðugt kvöld á milli stanganna hjá Kópavogsliðinu.

HK 1:0 Stjarnan opna loka
90. mín. 4 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert